Home / Fréttir / Danski utanríkisráðherrann blandast inn í rússneskt njósnamál

Danski utanríkisráðherrann blandast inn í rússneskt njósnamál

 

Vladimir Pútín
Vladimir Pútín

Rússi grunaður um njósnir sat í janúar 2017 trúnaðarfund Anders Samuelsens, utanríkisráðherra Dana, og háttsettra stjórnmálamanna í Úkraínu í Kænugarði. Jyllands-Posten hefur heimildir um þetta og birtir frétt um málið laugardaginn 23. desember.

Stanislav Jezov (39 ára) starfaði sem túlkur og ritari fyrir Volodymyr Grosyman, forsætisráðherra Úkraínu. Miðvikudaginn 20. desember var Jezov handtekinn í skrifstofu sinni í Kænugarður sakaður um að vera rússneskur njósnari.

Danska utanríkisráðuneytið sagði málið alvarlegt í sérstakri tilkynningu og haft er eftir utanríkisráðherranum:

„Mér hefur verið sagt að líklega hafi túlkur sem nú er grunaður um njósnir verið á fundi mínum með forsætisráðherra Úkraínu í janúar í ár. Komi í ljós að viðkomandi sé sekur um njósnir er það alvarlegt mál. Það er í höndum yfirvalda í Úkraínu að fjalla um það.“

Einnig er upplýst að sá grunaði sat einnig trúnaðarfundi sem túlkur á fundum með Theresu May, forsætisráðherra Breta, og Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna.

Jyllands-Posten segir að undanfarna mánuði hafi dönsk yfirvöld hert málflutning sinn í garð Rússa. Bent er á nýlegt hættumat Eftirgrennslanaþjónustu hersins, FE, þar sem Rússar eru nefndir meðal helstu ógnvalda Danmerkur. Þá er minnt á að Danir hafi sent 200 hermanna til herstöðva í Eystrasaltsríkjunum og Póllandi.

Herfræðingurinn Kristian Søby Kristensen við Center for Militære Studier, Herfræðistofnun Kaupmannahafnarháskóla segir málið einnig alvarlegt.

„Maður í þessari stöðu hefur verið einstaklega mikilvægur fyrir Rússa. Hann hefur getað frætt þá um afstöðu einstakra ríkja,“ segir hann.

Rússar segja þetta tilhæfulausar ásakanir.

 

 

 

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …