Home / Fréttir / Danski herinn lengir viðveru eftirlits- og leitarvélar á Grænlandi

Danski herinn lengir viðveru eftirlits- og leitarvélar á Grænlandi

Challlenger-vél danska hersins lendir á Grænlandi.

Um langt árabil hefur Challenger CL604-flugvél á vegum danska hersins staðið tilbúin til útkalls á Kangerlussuaq-flugvelli í Grænlandi í kringum 220 daga á ári. Nú verður vélin mönnuð til aðgerða allan sólarhringinn alla daga ársins. Þetta segir í frétt grænlenska útvarpsins KNR fimmtudaginn 5. ágúst með vísan til vefsíðu danska hersins.

Með þessari skipan mála er verið að framkvæma ákvæði í svonefndum Arktis-samningi innan danska ríkjasambandsins frá árinu 2016.

Þetta felur í sér að afnot af flugvélinni til eftirlits- og öryggisstarfa aukast. Þá styttist viðbragðstími vélarinnar til leitar og björgunar. Vélin er nýtt jafnt til eftirlits og til að árétta fullveldi Grænlands.

Verði hlé á viðveru vélarinnar á Grænlandi er það vegna viðhalds og viðgerða á henni.

Með Challenger-vélinni er unnt að safna upplýsingum fyrir danska herinn og þá sem sinna verkefnum vegna viðbragða um borð í skipum, þyrlum og flugvélum til dæmis við björgun úr sjávarháska.

Þá verður flugvélin notuð til eftirlits með fiskveiðum, einnig til flutninga og umhverfisverndar, til dæmis til að greina olíuflekki á hafi úti.

Fyrir utan að nota má vélina til að beina öðrum á rétta staði má einnig varpa úr henni litlum gúmmíbátum og björgunarbúnaði. Á hafi úti geta sex manns notað hvern gúmmíbát. Í björgunarbúnaðinum er að finna tjald, matvæli og klæðnað til varnar gegn heimskautakulda.

Martin la Cour-Andersen flotaforingi sem tók nýlega við forstöðu Arktisk Kommando í Nuuk á Grænlandi segir á vefsíðu hersins:

„Með viðveru Challenger-flugvélarinnar allan sólarhringinn, allt árið gefst okkur færi á að fá á aðeins fáeinum klukkustundum yfirsýn yfir stöðuna hvort sem um er að ræða björgunaraðgerðir á hafi úti, leit í fjöllum, skipsbruna eða mikil skriðuföll í fjöllum.“

Flotaforinginn lætur þess einnig getið að senda megi vélina til aðgerða í Færeyjum gerist þess þörf.

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …