Home / Fréttir / Danski forsætisráðherrann boðar lög um öryggi farkerfa – skorður settar við Huawei

Danski forsætisráðherrann boðar lög um öryggi farkerfa – skorður settar við Huawei

huawei-i-koebenhavns-sydhavn

Danskir sérfræðingar segja að dönsk stjórnvöld óttist nú síður en áður að troða Kínverjum um tær og að grípi því til öflugri varna fyrir danska lífshagsmuni. Á þennan veg hefst grein á vefsíðu Jyllands-Posten fimmtudaginn 14. maí þar sem sagt er frá því að þann dag hafi Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, boðað nýja löggjöf sem tryggi að þeir sem selji dönskum fyrirtækjum meðal annars 5G háhraða farnetskerfið ógni ekki þjóðarhagsmunum Dana. Hver sá sem ætlar að selja búnað sem snertir þjóðaröryggi verður að lúta lögunum innan alls danska ríkjasambandsins, það er í Danmörku, Færeyjum og á Grænlandi.

Í upplýsingaskjali sem danska forsætisráðuneytið hefur birt eru nefnd til sögunnar önnur evrópsk ríki sem hafa sett álíka ströng skilyrði gagnvart 5G-seljendum. Í Hollandi eru ákvæði um að 5G-seljandi geti ekki komið frá ríki þar sem fyrirtækjum er skylt að deila upplýsingum með ríkisvaldi viðkomandi lands – þannig er málum háttað í Kína. Breska ríkisstjórnin ætlar að banna „há-áhættuseljendum“ að koma að vissum hlutum farnetsins. Í Frakklandi hefur forsætisráðherrann neitunarvald gagnvart einstökum 5G-seljendum.

Mette Frederiksen sagði frá áformum sínum í danska blaðinu Berlingske og þar kemur einnig fram að í þrjú ár hafi umdeilda kínverska risafyrirtækið Huawei reynt að hafa áhrif á danska forsætisráðherra. Þótt Frederiksen nefni Huawei eða Kína hvergi í tillögum sínum eru sérfræðingar á einu máli um að í raun birtist þar uppgjör og strategísk umskipti gagnvart Kína.

Forsætisráðherrann segir að framvegis beri að líta á farnet sem kritisk infrastuktur, mikilvægt innra kerfi, og þess vegna verði dönsk yfirvöld að tryggja að seljendur slíkra kerfa séu áreiðanlegir og trúverðugir í Danmörku, Færeyjum og á Grænlandi. Minnt er á Kínverjar hafi beitt Færeyinga óvenjulega þungum þrýstingi í von um að þeir samþykktu að Huawei fengi fótfestu á eyjunum.

Forsætisráðherrann segir að ekki sé unnt að líta á þessi kerfi án þess að taka mið af þjóðaröryggishagsmunum.

Danska síma- og fjarskiptafyrirtækið TDC ákvað árið 2019 að eiga ekki viðskipti við Huawei um 5G-farnetið. Sögðu danskir stjórnmálamenn að þeir hefðu ekki átt neina aðild að þeirri ákvörðun, hún hefði 100% verið reist á viðskipta sjónarmiðum.

Venstre-maðurinn Claus Hjort Frederiksen, þáv. varnarmálaráðherra, fullyrti þá að Danir gætu ekki útilokað Huawei. Jafnaðarmaðurinn Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Dana, sagði undir lok árs 2019 þegar Kínverjar sóttu að Færeyingum að danska ríkisstjórnin gæti ekki skipt sér að því hver ræki 5G-net í Færeyjum.

Luke Patey, sérfræðingur í málefnum Kína við Dönsku utanríkismálastofnunina (DIIS), segir Dani undir gífurlegum þrýstingi vegna stórveldakeppninnar milli Bandaríkjamanna og Kínverja. Á hinn bóginn beri að gæta þess að færa ekki þau rök fyrir nýju dönsku löggjöfinni að hún sé aðeins vegna þrýstings frá Bandaríkjamönnum.

„Ástralar voru meðal þeirra sem fyrstir settu Huawei skorður og sama hefur gerst á Nýja-Sjálandi, í Japan og Suður-Kóreu. Meira að segja einnig í kommúnistalandinu Víetnam. Að nokkru má segja að þrýstingur Bandaríkjamanna hafi öfug áhrif vegna þess að ríkisstjórnir vilji ekki að svo líti út sem Trump forseti þvingi þær,“ segir Luke Patey.

Blaðamenn Berlingske fengu aðgang að skjölum sem sýna samskipti danska forsætisráðuneytisins og Huawei í þrjú ár.

Segir blaðið að kínverska fyrirtækið hafi leitast við að hafa bæði áhrif á jafnaðarmanninn Mette Frederiksen og forvera hennar Venstre-manninn Lars Løkke Rasmussen.

Skýrasta dæmið sé frá mars 2019 þegar Lan Yang, forstjóri Huawei, skrifaði Lars Løkke Rasmussen og sagði að „án vafa“ mundi það hvetja önnur kínversk fyrirtæki til að fjárfesta í Danmörku og eiga viðskipti við Dani ef TDC gengi til samninga við Huawei um kaup á 5G-búnaði.

Færi á hinn bóginn svo að Huawei yrði hafnað kynni það að skapa vanda og íjaði Huwei-forstjórinn á efnahagsþvingun þegar hann sagði: „Á hinn bóginn kunna hugsanleg vandræði Huawei í Danmörku að hafa alvarleg áhrif á fjárfestingartraust annarra kínverskra fyrirtækja til Danmerkur.“

Í skjölunum kemur einnig fram að árinu 2018 ætlaði starfsmaður hjá Huawei út að hlaupa með Løkke og í desember 2019 reyndi Huawei að sannfæra Mette Frederiksen um að Huawei væri ekki notað til kínverskra njósna.

Opinberlega liggja ekki fyrir upplýsingar um að Huawei hafi verið staðið að verki við njósnir fyrir Kína eða miðli trúnaðarupplýsingum til Kína.

„Það hefur ekki verið staðið að verki en kínversku njósnalögin frá 2017 tala skýru máli. Þar er sagt almennum orðum að kínverskum fyrirtækjum beri að miðla áfram upplýsingum, óski stjórnvöld þess,“ segir Patey.

Hann segir að fyrir hendi séu vísbendingar um að Huawei hafi veitt liðsinni við njósnir, þar beri hæst frétt í franska blaðinu Le Monde um skrifstofu Afríkusambandsins í Eþíópíu. Farkerfið þar var frá Huawei og Le Monde komst að því að á hverju kvöldi var gögnum miðlað úr byggingunni til Shangai í Kína.

Michael Aastrup Jensen, talsmaður Venstre-flokksins, stærsta danska stjórnarandstöðuflokksins, segir jákvætt að forsætisráðherrann vilji slá skjaldborg um mikilvægt innra kerfi á borð við farkerfið. Venstre vilji viðskiptasamstarf við Kína en þegar um mikilvægt innra kerfi sé að ræða beri að eiga viðskipti við fyrirtæki í ríkjum sem Danir starfi með í öryggismálum og leyniþjónustumálum.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …