Home / Fréttir / Danske Bank sætir ámæli fyrir peningaþvætti valdamanna í Azerbaijdsan

Danske Bank sætir ámæli fyrir peningaþvætti valdamanna í Azerbaijdsan

33338

Danske Bank sætir þungu ámæli fyrir hlutdeild sína í peningaþvætti fyrir stjórnarherrana í Azerbajdsan. Berlingske Tidende birti þriðjudaginn 5. september frétt um að þessi stærsti banki Dana hefði árum saman leyft hindrunarlausar færslur á fé frá Azerbajdsan um útibú bankans í Eistlandi inn á reikninga fjögurra fyrirtækja í Bretlandi, alls um 2,8 milljarða dollara til ársins 2014.

Peningarnir hafa verið notaðir í þágu valdamikilla stjórnmálamanna, háttsettra embættismanna og áhrifamikilla fjölmiðlamanna um heim allan sem hafa tekið upp hanskann og borið blak af spilltum stjórnarháttum í Baku, höfuðborg Azerbajdsan.

Eftir að Berlingske fékk í sínar hendur gögn um reikningana í Danske Bank hófu blaðamenn þar samstarf við alþjóðlegu blaðamannasamtökin OCCRP og grandskoðuðu um 16.000 færslur í samvinni við blaðamenn frá The Guardian í London, Süddeutsche Zeitung í München og margra annarra fjölmiðla í Evrópu og Bandaríkjunum.

Sérfræðingar eru ekki í neinum vafa um að Danske Bank hafi brotið reglur um peningaþvætti sem eiga að sporna gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi og spillingu.

Innan Evrópuráðsins í Strassborg fer nú fram sérstök rannsókn á því hvort fé úr þessum leynisjóðum hafi verið notað til að kaupa atkvæði þingmanna á þingi Evrópuráðsins árið 2013 þegar þar var til afgreiðslu tillaga sem fól í sér gagnrýni á stjórnarhætti í Azerbajdsan og þar með forseta landsins Ilham Alijev. Tillagan var felld. Margt þykir renna stoðum undir þá skoðun að Alijev standi sjálfur að baki fjárstreyminu til Vesturlanda og um sé að ræða hluta af miklum olíutekjum landsins.

Að baki tillögunni í Evrópurráðsþinginu lágu fullyrðingar um spillta stjórnarhætti í Baku, fölsun kosningaúrslita og ofbeldi af hálfu stjórnvalda sem létu handtaka stjórnarandstæðinga, baráttumenn fyrir mannréttindum og blaðamenn. Það er einmitt hlutverk Evrópuráðsins og þings þess að vinna að opnum, lýðræðislegum stjórnarháttum í aðildarríkjunum 47 en Ísland er þar á meðal.

Eftir að hlutur Danske Bank í þessu spillingarmáli komst í hámæli sagði Flemming Pristed, aðallögfræðingur bankans, að fréttin um milljarðana frá Azerbajdsan væri „því miður enn eitt dæmið um að á þessum tíma gerðum við ekki nóg til að hindra að það mætti misnota eistneskt útibú okkar og okkur til peningaþvættis og annarra ólöglegra athafna“.

 

Skoða einnig

NATO-aðild Úkraínu til umræðu í Moldóvu og Osló

Í gær (1. júní) lauk tveggja daga óformlegum utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna í Osló. Þá var einnig …