Home / Fréttir / Danska varnarmálaráðuneytið vill aukin afnot af Keflavíkurstöðinni og nánara samstarf við ISAVIA

Danska varnarmálaráðuneytið vill aukin afnot af Keflavíkurstöðinni og nánara samstarf við ISAVIA

 

 

Danska eftirlitsskipið Knud Rasmussen sem oft má sjá í Reykjavíkurhöfn.
Danska eftirlitsskipið Knud Rasmussen sem oft má sjá í Reykjavíkurhöfn.

Danska varnarmálaráðuneytið birti mánudaginn 27. júní 248 bls. skýrslu um framtíðarverkefni sín á norðurslóðum (Arktis). Af skýrslunni má ráða að samvinna við Íslendinga og aðstaða á Keflavíkurflugvelli skiptir Dana mjög miklu við framkvæmd þessara verkefna.

Víða í skýrslunni kemur fram hve mikilvægt er fyrir dönsku herstjórnina að eiga náið samstarf við Íslendinga á öllum sviðum en þó einkum við eftirlit, landhelgisgæslu og leit- og björgun.

Í skýrslunni er sérstakur kafli um afnot af Keflavíkurstöðinni. Tekið er fram að nú þegar sé gott og náið samstarf við Landhelgisgæslu Íslands og ISAVIA en í ýmsu tilliti sé nauðsynlegt að efla það. Frá Keflavíkurflugvelli megi halda uppi eftirlitsflugi í þágu umhversverndar undan strönd Austur-Grænlands og þar sé unnt að þróa móttökustöð fyrir þá sem bjargað er vegna slysa á Grænlandi. Einnig gætu hervélar sem sendar yrðu öðru hverju til eftirlits við Grænland og Færeyjar haft aðsetur á vellinum og stundað þaðan alls kyns æfingar.

Þá er rætt um að útfæra danska Maritime Domain Awareness-kerfið, það er eftirlits- og viðbragðskerfi á hafinu, þannig að við starfsmönnum Landhelgisgæslu Íslands blasti sama skjámynd og Dönum til dæmis við skipulagningu björgunaraðgerða. Þá mundi það stórauka eftirlitsgetu Dana að fá aðgang að hernaðarlega ratsjárkerfinu á Íslandi sem rekið er af landgelgisgæslunni.

Sagt er að stórefla megi samstarfið við ISAVIA með aðgangi að upplýsingum frá félaginu um flugumferð og að fjarskiptakerfum þess.

Hvatt er til þess að farið verði yfir núgildandi samstarfssamninga Dana og Íslendinga með það fyrir augum að styrkja þá með nýjum ákvæðum meðal annars um samstarf við ISAVIA og um afnot af Keflavíkurstöðinni.

Í skýrslunni er gert ráð fyrir að auka útgjöld til þess að gæta öryggis á norðurslóðum um 120 milljónir d.kr. á ári. Þetta er ekki há fjárhæð í sjálfu sér þegar litið er til þess að heildarútgjöld Dana til varnarmála eru um 20 milljarðar d. kr. á ári. Fjárhæðin skiptir þó máli og fyrsta verkefnið er að auka eftirlit bæði með gervihnöttum og flugvélum.

Peter Christensen, varnarmálaráðherra Dana, bendir á að aukið fjareftirlit af þessu tagi auðveldi herstjórninni að nýta skip og önnur tæki á hagkvæmari hátt til aðgerða þar sem þeirra er þörf.

FE, leyniþjónusta danska hersins sem aflar upplýsinga og greinir þróun mála utan Danmerkur, hefur hvað eftir annað lýst áhyggjum vegna umsvifa Rússa á norðurslóðum. Peter Christensen varnarmálaráðherra telur enga hernaðarlega ógn stafa af Rússum á þessum slóðum um þessar mundir. Eins og málum sé háttað virðist aðildarríki Norðurskautsráðsins samstiga í afstöðu sinni til málefna Norður-Íshafsins. Engar líkur séu á að það breytist.

Borgaraleg umsvif á norðurslóðum aukast hins vegar jafnt og þétt og er talin ástæða til að hafa varann á vegna þeirrar þróunar. Á Dönum hvílir alþjóðleg skylda um að sinna viðunandi strandgæslu þar með hafa nægan viðbúnað til leitar og björgunar á hafi úti auk þess að sporna gegn mengun hafsins.

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …