Home / Fréttir / Danska þingið vill fæla hælisleitendur frá Danmörku

Danska þingið vill fæla hælisleitendur frá Danmörku

Jafnaðarmaðurinn Mattias Tesfaye útlendingamálaráðherra, sonur landflótta Eþíópíumanns.

Danska þingið samþykkti með 70 atkvæðum gegn 24 fimmtudaginn 3. júní lög sem veita yfirvöldum heimild til að senda hælisleitendur til landa utan Evrópu á meðal umsóknir þeirra um hæli eru til afgreiðslu hjá dönskum yfirvöldum. Við afgreiðslu frumvarpsins voru 85 þingmenn fjarverandi.

Flóttmannastjóri Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandið og ýmsar alþjóðastofnanir gagnrýna ákvæði laganna og áformin sem þau heimila. Þau grafi undan alþjóðasamvinnu og ekki sé nægilega ljóst hvernig mannréttindi verði tryggð.

Jafnaðarmaðurinn Mattias Tesfaye útlendingamálaráðherra, sonur landflótta Eþíópíumanns, segir að ríkisstjórnin þurfi ný lög um málefni hælisleitenda áður en hún leggur fram tillögur um hvernig staðið verði að framkvæmd þeirra. Þingmenn úr mið-hægriflokkum studdu minnihlutastjórn jafnaðarmanna með atkvæðum sínum í danska þinginu og tryggðu samþykkt frumvarpsins.

Árið 2019 var meðal kosningaloforða danska Jafnaðarmannaflokksins, sem nú situr við völd í Danmörku, að hælisleitendur yrðu erlendis á meðan umsóknir þeirra hlytu afgreiðslu. Þá túlkuðu margir loforðið þannig að hælisleitendur dveldust ekki framar í Danmörku.

Nú segja gagnrýnendur jafnaðarmanna að nýju lögin gangi skemur en kosningaloforðið vegna þess að afgreiðsla mála verði á þann veg að hælisleitendur dveljist í Danmörku á meðan ákveðið sé hvort þá eigi að senda í búðir utan Danmerkur á meðan efnisleg afstaða sé tekin til hælisumsóknarinnar.

Talið er að við framkvæmd laganna þurfi bæði Udlændingestyrelsen, útlendingastofnunin, og Flygtningenævnet, flóttmannanefndin, að samþykkja brottflutning hælisleitanda í búðir erlendis. Segi önnur stofnunin nei dvelst hælisleitandinn áfram í Danmörku á meðan efnisleg afstaða er tekinn til umsóknar hans.

Markmið laganna er að letja farandfólk frá því að fara inn fyrir landamæri Danmerkur. Það kunni að jafngilda brottflutningi í búðir utan Evrópu.

Danska ríkisstjórnin ritaði í maí undir samning með fulltrúum Rwanda um útlendinga- og hælismál. Þá gerðu danskir embættismenn lítið úr getgátum um að hælisleitendur sem kæmu til Danmerkur yrðu sendir til Afríku og sögðu þetta aðeins „vangaveltur“.

Í fjölmiðlum hafa birst fréttir um viðræður fulltrúa danskra stjórnvalda við embættismenn í Eþíópiu, Túnis og Egyptalandi.

Charlotte Slente hjá dönsku flóttamannasamtökunum segir ábyrgðarlaust og í andstöðu við samstöðu með öðrum að færa ábyrgð á afgreiðslu hælisumsókna til útlanda. Samtökin hafi oft hvatt danska þingmenn til að hafna hugmyndum í þessa veru. Þá sé enn mjög óljóst hvaða stjórnsýslureglur eigi að gilda í móttökustöðvum í þriðju löndum í ljósi lagalegrar ábyrgðar Dana á að tryggja hælisleitendum og flóttamönnum vernd.

Hún harmar að frumvarpið hafi verið samþykkt þrátt fyrir andmæli flóttamannasamtakanna og án nægilegra athugana á efni þess og afleiðingum. Hvergi séu séu nein sambærileg lög í gildi og þess vegna hafi þingmenn tekið ákvörðun sína í blindni.

Undanfarin ár hefur hælisumsóknum fækkað jafnt og þétt í Danmörku. Árið 2020 sóttu aðeins rúmlega 1.500 um hæli þar en flestar umsóknir bárust árið 2015 rúmlega 21.000. Þá náðu rúmlega milljón aðkomumenn á flótta frá Mið-Austurlöndum og Afríku að ströndum Evrópu og inn í ESB.

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …