Home / Fréttir / Danska stjórnkerfið nötrar vegna leyniþjónustuhneykslis

Danska stjórnkerfið nötrar vegna leyniþjónustuhneykslis

Claus Hjort Frederiksen og Lars Findsen.

Í Danmörku dregur FE-sagen (FE er skammstöfun fyrir Forsvarets Efterretningstjeneste, leyniþjónustu hersins) að sér alla athygli í fjölmiðlum fimmtudaginn 2. nóvember eftir að ákæruvaldið ákvað 1. nóvember að fella málið niður.

Málið kom fyrir sjónir almennings í upphafi árs 2020 þegar nokkrir starfsmenn FE voru leystir frá störfum vegna þungrar gagnrýni óháðrar eftirlitsnefndar með leyniþjónustustofnununum, Tilsynet med Efterretningstjenesterne (TET). Auk hersins starfar leyniþjónusta á vegum dönsku lögreglunnar, Politiets Efterrettningstjeneste (PET).

Meðal annars voru grunsemdir um að FE hefði látið undir höfuð leggjast að miðla upplýsingum til TET og njósnað um einn í starfsliði TET.

Lars Findsen, forstjóri FE, var meðal þeirra sem voru leystir frá störfum. Á árinu 2021 hreinsaði rannsóknarnefnd hann af gagnrýni eftirlitsnefndarinnar, TET. Nokkrum dögum áður hafði hann verið handtekinn.

Findsen sat 70 daga í gæsluvarðhaldi og var ákærður ásamt Claus Hjort Frederiksen, fyrrv. dómsmálaráðherra, þungavigtarmanni í Venstre-flokknum, og einum starfmanni PET.

Fyrir þingkosningar í Danmörku haustið 2022 gaf Lars Findsen út bók þar sem hann sakar Trine Bramsen, þáv. varnarmálaráðherra í stjórn Jafnaðarmannaflokksins, um að láta pólitísk sjónarmið ráða. brottrekstri sínum 2020. Bramsen hafnar þeirri ásökun.

Föstudaginn 27. október komst danski hæstirétturinn að þeirri niðurstöðu að ákæruvaldið gæti ekki krafist lokaðra réttarhalda gegn Findsen og Hjort í FE-málinu. Það yrði að hluta að fara fram fyrir opnum tjöldum.  Með vísan til þessa ákvað ákæruvaldið miðvikudaginn 1. nóvember að falla frá ákærunni gegn Findsen og Hjort auk ónafngreinda PET-mannsins en meðferð á máli hans var önnur.

Þessi ákvörðun veldur nú pólitískum deilum og hafa ýmsir þingflokkar óskað eftir rannsókn á gangi málsins og þar á meðal hlut Mette Frederiksen forsætisráðherra og ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins, Barböru Bertelsen. Þá verði farið í saumana á því sem gerðist á þeim tíma sem Trine Bramsen var varnarmálaráðherra. Hún lenti ekki aðeins í útistöðum við forstjóra FE heldur einnig yfirstjórn danska heraflans í ráðherratíð sinni. Hún sagðist líta á herinn sem hverja aðra ríkisstofnun.

Í danska blaðinu Politiken segist Claus Hjort Frederiksen sannfærður um að forsætisráðherrann og ráðuneytisstjóri hennar hafi átt hlut að málinu.

„Aðalábyrgðin í málinu er í forsætisráðuneytinu. Í mínum huga er enginn vafi um að ráðuneytisstjórinn Barbara Bertelsen hefur keyrt málið áfram en að mínu áliti gerði hún það ekki að ein og óstudd. Á einn eða annan hátt hefur forsætisráðherrann staðið þar að baki,“ segir Claus Hjort Frederiksen við Politiken.

Í dag lýsir Berlingske málinu sem „sögulegri örmögnun“ á forsíðu sinni og ritstjóri blaðsins, Tom Jensen, segir að málið sé „ stærsta pólitíska/stjórnsýslulega hneyksli í síðari tíma sögu Danmerkur“. Í því birtist „hyldýpi hæfnisskorts eða pólitískrar valdníðslu einkum hjá fyrrverandi eins flokks ríkisstjórn jafnaðarmanna og æðstu embættismönnum“.

Knud Brix, ritstjóri Ekstra Bladet, segir að málið hafi „fallið saman eins og úldin lagkaka“. „Þetta er gífurleg niðurlæging fyrir ríkisstjórnina. En meira en það. Þetta er án alls vafa mesta leyniþjónustuhneykslið í sögu Danmerku.“

Í leiðara Jyllands-Posten segir að málið grafi mjög undan trausti og spjótin beinist að forsætisráðuneytinu.

Politiken er sömu skoðunar en telur að málið dragi dilk á eftir sér: „Að öryggi þjóðarinnar sé skaðað og lögð sé fram ákæra gegn fyrrverandi toppstjórnmálamanni og leyniþjónustustjóra sem síðar verður einfaldlega að engu getur að sjálfsögðu ekki gerst án afleiðinga í réttarríki.“

 

Heimild: Berlingske.n

Skoða einnig

NATO verður að móta norðurslóðastefnu til að svara umsvifum Rússa frá Kólaskaga

Liselotte Odgaard er Senior Fellow, Hudson Institute, Washington, D.C. Greinin sem hér er sagt frá …