Home / Fréttir / Danska stjórnin kynnir nýja stefnu í utanríkis- og öryggismálum

Danska stjórnin kynnir nýja stefnu í utanríkis- og öryggismálum

 

Frá danska utanríkisráðuneytinu.
Frá danska utanríkisráðuneytinu.

Danska ríkisstjórnin birti miðvikudaginn 14. júní meginstefmu sína í utanríkis- og öryggismálum fyrir 2017 – 2018. Stefnan er reist á rannsóknarvinnu sem gerð var grein fyrir árið 2016. Meginviðfangsefnið er að takast á við nýjar aðstæður við ótryggar aðstæður í heimsmálum.

Í kaflanum sem fjallar um öryggi í nágrenni Danmerkur segir að ríkisstjórnin muni vinna að því að tryggja það bæði í þágu Dana sjálfra og bandamanna þeirra. Það verði gert með aðgerðum á vettvangi NATO, stefnufestu gagnvart ágengni af hálfu Rússa en einnig með viðræðum sem miði meðal annars að því að viðhalda norðurskautssvæðinu sem lágspennusvæði. Þá ætlar ríkisstjórnin að efla netöryggi.

Sagt er að ógnarmyndin sem blasi við íbúum Danmerkur og Evrópu sé allt önnur og alvarlegri en nokkru sinni frá því að Berlínarmúrinn féll árið 1989. Ólögleg innlimun Rússa á Krímskaga og undirróður þeirra í Úkraínu, á Eystrasaltssvæðinu og í Kákasus árétti þörfina fyrir samstöðu og samstarf ríkja í Evrópu og Norður-Ameríku.

Ríkisstjórnin telur NATO-samstarfið og tengslin yfir Atlantshaf veita Dönum og Evrópubúum mest öryggi. Þess vegna skipti það Dani miklu að lögð sé mikil og einlæg rækt við samstöðuna innan NATO. Ekki sé nýmæli að þess sé óskað að þjóðir Evrópu og Kanada verji 2% af vergri landsframleiðslu sinnar til varnarmála. Þá sé ekki heldur erfitt að sjá ójafnvægi í NATO-framlögum og nauðsyn þess að þar ríki meira jafnræði. Danir leggi markverðan skerf af mörkum, ekki síst þegar komi að þátttöku í aðgerðum.

Danir láti að sér kveða hernaðarlega í austurhluta NATO, þeir séu í fremstu röð þeirra sem berjast gegn Daesh (Ríki íslams) og taki þátt í að skapa stöðugleika í Afganistan. Þeir hafi komið á öflugan hátt að friðargæslu Sameinuðu þjóðanna í Malí. Þeir standi að gagnaðgerðum á Eystrasaltssvæðinu. Þeir verði þó enn að verja meiri fjármunum í þágu varnarmála meðal annars til að styrkja fælingar- og varnarmátt NATO. Þetta geri þeir bæði með hagsmuni heildarinnar og eigin hagsmuni í huga.

Danska ríkisstjórnin hefur áhyggjur af viðleitni Rússa til að láta meira að sér kveða í nágrenni Danmerkur. Þó megi ekki gleyma að Rússar séu nágrannaþjóð og við hana verði að ræða. Danir og ESB vilji eiga viðræður við Rússa. Þó verði ekki í neinu gefið eftir frá því sem nú er í samræmi víðtækan stuðning við það meðal bandamanna Dana. Innan NATO ætlar ríkisstjórnin að beita sér fyrir því að bandalagsþjóðirnar í austurhluta Evrópu fái skýr skilaboð um samstöðu annarra bandalagsþjóða með þeim í krafti fælingarstefnunnar. Innan ESB verður lögð þung áhersla á að aðildarríkin standi áfram saman um afdráttarlausa stefnu varðandi refsiaðgerðir og þrýsting á Rússa til að þeir virði Minsk-samkomulagið um frið í Úkraínu. Jafnframt verði séð til þess að Rússar einangrist ekki og stuðlað sé að gagnkvæmum skilningi með þeim meðal annars á málefnum norðurskautsins sem flokkuð verði sem lágspennusvæði.

Danska ríkisstjórnin telur að í tilraunum Rússa til að hafa áhrif á ákvörðunaraðila og almenning á Vesturlöndum felist vaxandi áskorun. Beint verður athygli að slíkum herferðum Rússa sem kunna að ógna opnum lýðræðisríkjum og sundra alþjóðasamstarfi. Þegar tekið sé á þessum málum komi skýrt fram að ekki sé alltaf unnt að greina á milli innanríkis- og utanríkismála, viðbrögðin ráðist því af náinni samvinnu ólíkra aðila innan danska stjórnkerfisins.

Minnt er á að þróunin á Eystrasalti og í Eystrasaltsríkjunum skipti sköpum fyrir öryggi Danmerkur. Sagan sýni að Danir hafa lengi átt náið samstarf við Eystrasaltsþjóðirnar. Ríkisstjórnin vilji halda því áfram, efla og þróa. Það gildi bæði um NATO-ríki við Eystrasalt og Svíþjóð og Finnland að stjórnvöld allra þessara landa vilji gæta að öryggi og stöðugleika á Eystrasaltssvæðinu. Með hliðsjón af landfræðilegum og stjórnmálalegum hagsmunum Dana og breyttum aðstæðum vilji ríkisstjórnin að Danir verði láti meira að sér kveða í öryggismálum. Það verði gert með því að efla norrænt samstarf og samstarfið við aðrar bandalagsþjóðir við Eystrasalt meðal annars í tengslum við fjölgun hermanna undir merkjum NATO í Eystrasaltsríkjunum.

Lögð er áhersla á náið og gott samstarf við Úkraínumenn.

Undir lok þessa kafla um öryggismál er sérstaklega vikið að netöryggi sem ekki verði tryggt nema með sérstökum aðgerðum á heimavelli og í samstarfi við önnur ríki. Þar komi til álita varnir gegn tölvuárásum, barátta við netafbrot og misnotkun hryðjuverkamanna á netinu auk þess varðstaða um mannréttindi þar. Þarna sé nauðsynlegt að tengja alla þræði stjórnkerfisins í innanríkis- og utanríkismálum. Ríkisstjórnin ætlar því að kynna nýja þjóðaröryggisstefnu fyrir netheima og tölvur. Þá verður samstarf á þessu sviði eflt við ESB, SÞ og NATO. „Við ætlum að verða betur í stakk búin til að verja okkur sjálf gegn þeim sem nýta internetið til að stela upplýsingum og skaða hagsmuni opinberra aðila og einkafyrirtækja,“ segir í lok þessa kafla nýju skýrslunnar um stefnu Dana í utanríkis- og öryggismálum

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …