
Danska ríkisstjórnin sagði miðvikudaginn 31. október að hún ætlaði að ræða við bandamenn sína um hvort grípa ætti til sérstakra refsiaðgerða gegn Írönum eftir að hún sakaði stjórnvöld í Teheran um að leggja á ráðin um að myrða íranska andófsmenn sem búa í landinu.
„Næstu daga ætlum að ræða við evrópska bandamenn okkar hvort svara eigi á samræmdan hátt,“ sagði Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Dana, á blaðamannafundi með norrænum forsætisráðherrum í Osló þar sem Norðurlandaráð kom saman til fundar.
Danir tilkynntu þriðjudaginn 30. október að þeir ætluðu að kalla sendiherra sinn heim frá Íran eftir að danska leyniþjónustuna, PET, sakaði írönsku leyniþjónustuna um að „skipuleggja árás í Danmörku“ gegn þremur Írönum sem eru félagar í samtökunum ASMLA (Arab Struggle Movement for the Liberation of Ahvaz). Habib Jabor, forystumaður samtakanna, er búsettur í Danmörku. Samtökin berjast fyrir aðskilnaði araba frá Íran og stofnun sérstaks ríkis í suðvestur hluta Írans þar sem eru helstu olíulindir landsins. Stjórnvöld í Teheran segja ASMLA hryðjuverkasamtök.
Norðmaður af írönskum ættum var handtekinn í Danmörku 21. október sakaður um að skipuleggja launmorðin og stunda njósnir fyrir Íran. Írönsk stjórnvöld hafa hafnað þessum ásökunum og segja þær lið í evrópsku samsæri gegn íslamska lýðveldinu í Íran.
Fjölmiðlar í Ísrael segja að Mossad, leyniþjónusta Ísraels, hafi miðlað leynilegum upplýsingum til PET um áform Írananna. Sérfræðingar á Norðurlöndum telja það ekki ólíklegt vegna náins eftirlits Ísraela með hverju skrefi Írana.
Bretar og Bandaríkjamenn lýsa stuðningi við Dani vegna þessa máls en fyrirvara gætir í yfirlýsingum ráðamanna ESB í Brussel. Þeir vilja í lengstu lög reyna að halda Írönum við efni kjarnorkusamningsins frá 2015 eftir að Bandaríkjastjórn sagði sig frá honum. Á blaðamannafundinum í Kaupmannahöfn sagði Rasmussen að „við viljum vernda kjarnorkusamninginn“.
Undir lok september sakaði stjórnin í Teheran Dani, Hollendinga og Breta um að „hýsa ýmsa félaga í hryðjuverkasamtökum“ sem írönsk stjórnvöld telja bera ábyrgð á árásum í borginni Ahvaz í suðvesturhluta Írans þar sem íbúar eru að meirihluta arabískir. Fimm byssumenn hófu árás á hersýningu þar 22. september og týndu 24 lífi.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði þriðjudaginn 30. september að Bandaríkjastjórn stæði að baki Dönum, bandamönnum sínum í NATO.
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, sagði stjórn sína undirbúa aðgerðir gegn Írönum af sinni hálfu. Stefan Löfven, forsætisráðherra Svía, sagði að stjórn sín fylgdist náið með framvindu mála með dönskum vinum sínum og að fenginn frekari vitneskju tæki hún ákvörðun um næstu skref.