
Andreas Krog, ritstjóri utanríkis- og varnarmála á dönsku vefsíðunni altinget.dk, ræddi á dögunum við Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Dana, um stöðuna í öryggismálum með sérstakri skírskotun til Færeyja og Grænlands. Samtalið birtist á vefsíðunni 6. apríl 2023.
Í upphafi er þess getið að danski íhaldsmaðurinn og utanríkisráðherrann Per Stig Møller hafi árið 2008 átt frumkvæði að því að fulltrúar strandríkjanna fimm við Norður-Íshaf, Bandaríkjanna, Danmerkur, Kanada, Noregs og Rússlands skrifuðu undir svonefnda Ilulissat-yfirlýsingu.
Þar var tekið af skarið um að norðurslóðir (d. Arktis) ættu að vera lágspennusvæði þar sem vestrænar þjóðir, Rússar og margar aðrar gætu unnið saman, hvað sem liði átökum annars staðar í heiminum.
Síðan hefur breyting orðið og innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022 hefur haft afleiðingar á norðurslóðum. Norðurskautsráðið er í lamasessi sem sameiginlegur vettvangur norðurskautsríkjanna átta, þar sem sjö ríki þess hafa gert hlé á samstarfi sínu við Rússa.
Rússar hafa í mörg ár unnið gegn anda Ilulissat-yfirlýsingarinnar með hervæðingu sinni á norðurslóðum. Þeir hafa opnað að nýju og endurgert margar herstöðvar frá sovéttímanum, reist nýjar stöðvar og skipulega unnið að því að auka hernaðarleg umsvif sín í norðri.
„Hervæðing einkennir það sem gerist í norðurhluta Rússlands og það kann hugsanlega að breyta hættumyndinni. Það á ekki að falla frá þeirri ætlan okkar að halda í Arktis sem lágspennusvæði. En við verðum einnig að líta á málin af raunsæi,“ segir Lars Løkke Rasmussen ( f. 1964), núverandi utanríkisráðherra Dana og formaður Moderaterne, flokks sem hann stofnaði árið 2021 eftir að hafa klofið sinn gamla flokk, Venstre. Andreas Krog hitti hann í danska utanríkisráðuneytinu við Asiatisk Plads í Kaupmannahöfn.
Tilgangur blaðamannsins er að leita eftir áliti utanríkisráðherrans á stöðunni í öryggismálum innan danska konungsríkisins eða Rigsfællesskabet sem nær yfir Danmörku, Færeyjar og Grænland og spannar því yfir svæði þar sem Ísland skiptir miklu sé litið til samgangna og öryggismála.
Minnt er á að árið 2021 ákváðu danskir stjórnmálamenn að efla danskar varnir í norðri með sérstakri 1,5 milljarða d .kr. aukafjárveitingu (30 milljarðar ísl. kr). Höfuðáhersla var lögð á eftirlitsbúnað til notkunar í Arktis, langdræga dróna, gervihnetti og nýja stóra ratsjá í Færeyjum, þar sem NATO-ratsjá var lokað árið 2007.
Í upphafi spyr Krog hvort með þessu taki Danir ekki sjálfir þátt í hervæðingu sem þeir skammi Rússa fyrir að stunda.
„Nei. Af því að það á ekki að vera neitt valdatómarúm. Gæti maður ekki sjálfur að sínu eigin svæði koma einhverjir aðrir og hrifsa það. Þess vegna er sífellt mikilvægara að eiga náið samstarf við Grænlendinga og Færeyinga við að móta sameiginlega heimsmynd. Og við tölum ekki heldur um neinar landvarnir sem ögra öðrum. Fyrir okkur vakir að vita meira og hafa betri sýn á það sem gerist á okkar eigin yfirráðasvæði,“ segir danski utanríkisráðherrann.
Krog segir að Grænlendingar ítreki hvað eftir annað þörfina fyrir friðlýsingu. Hvernig getum við látið það samræmast því sem Danir, Bandaríkjamenn og fulltrúar NATO vilja?
„Það gerum við með því að tala saman,“ svarar Løkke, stutt og laggott.
Krog spyr hvort ekki kunni að skapast sú staða að óskir og þarfir af hálfu Bandaríkjamanna og NATO falli einfaldlega ekki að því sem Grænlendingar vilji.
„Það er ljóst að samhliða því sem ástand öryggismála breytist hefur viðhorfið til Norður-Atlantshafs breyst. Ekki er um algjörlega nýja sýn að ræða. Á hinn bóginn er viðurkennt að ekki ríkir fullur einhugur um að þetta sé lágspennusvæði heldur sé um að ræða lágspennusvæði með nokkrum hugsanlegum áhættuþáttum,“ segir Lars Løkke Rasmussen og heldur áfram:
„Við verðum að horfa á þetta raunsæjum augum. Við viljum hins vegar ekki hervæða Arktis.“
Krog minnir á að í maí hefjist viðræður milli dönsku stjórnmálaflokkanna um fjárveitingar til danskra varnarmála næstu 10 árin. Stefnt er að sem víðtækastri pólitískri sátt um þessar fjárveitingar og ráðstöfun þeirra (d. forsvarsforlig). Nú þegar er ljóst að flokkana greinir ekki á um nauðsyn þess að efla styrk danska konungsríkisins í Arktis, til eftirlits og til að gæta dansks fullveldis.
„Öryggis ríkisins (d. Rigsfællesskabet) í víðasta skilningi – og ekki aðeins öryggis Danmerkur – verður að gæta af framsýni. Bæði þegar ríkisstjórnin mótar stefnu sína í utanríkis- og öryggismálum á næstunni og þegar samið er milli flokkanna um varnarmálin. Það yrði til marks um skort á nauðsynlegri aðgæslu sé ekki gengið til slíkra fjárfestinga,“ segir danski utanríkisráðherrann.
Krog víkur þá að aðild Svía og Finna að NATO og minnir á að við það verði sjö af átta aðildarríkjum Norðurskautsráðsins í NATO. Rússar standi einir utan bandalagsins.
Hann spyr Løkke hvort það hvetji Rússa ekki til að hervæðast enn frekar í Arktis.
„Ekki að mínu áliti. Það er ótvíræður ávinningur af því að fá Svía og Finna í NATO. Það lokar hringnum við Eystrasalt. Það skapar einnig vídd í Arktis. Og ég lít einnig á það sem svigrúm til samvinnu milli nýju NATO-landanna.
Spurningin er hvernig það verður nýtt. Það á ekki að líta þannig á að nú gefist færi á að hervæða Arktis. Við eigum hins vegar að sjá til þess að fyrir hendi sé nægilegt afl miðað við hervæðinguna sem verður í norðurhluta Rússlands. Annars má saka okkur um barnaskap,“ segir Løikke.
Kínverjar á bak við tjöldin
Krog minnir á að Rússar séu ekki þeir einu sem Danir þurfi að hafa auga með í Arktis. Kínverjar hafi skilgreint ríki sitt sem „næstum norðurslóðaríki“, þeir séu þar á bak við tjöldin og oft sýni þeir á sér andlitið.
Oftar en einu sinni hafi stjórnvöldum í Færeyjum og á Grænlandi þótt nóg um afskipti frá Kaupmannahöfn af samskiptum þeirra við önnur ríki, til dæmis varðandi fjárfestingar í mikilvægum grunnvirkjum og námuvinnslu.
Grænlendingar hafi einkum kynnst „rauðum strikum“ frá Kaupmannahöfn vegna áhuga Kínverja á að koma ár sinni fyrir borð á Grænlandi. Erfitt sé að henda reiður á hvort kínverska ríkið eða einkafyrirtæki eigi hlut að máli. Þá séu mörg dæmi um að ríki verði háð Kínverjum vegna hárra skulda og þar eigi kínverska stjórnin oft hlut að máli og hún nýti sér stöðuna í pólitískum tilgangi.
Fyrir fáeinum árum voru grænlensk stjórnvöld næstum að því komin að semja við kínverska fjárfesta um stækkun helstu flugvalla á Grænlandi, vallanna sem nýttir eru af vélum frá Evrópu og Bandaríkjunum.
Til að stöðva þetta beitti Lars Løkke Rasmussen sem forsætisráðherra sér fyrir því að árið 2018 að samið var við Kim Kielsen, þáverandi formann grænlensku landstjórnarinnar, um að danska ríkið legði 700 m. d. kr. í flugvallarverkefnið og ábyrgðist 900 m. d. kr. að auki í þetta meira en 3000 m. d. kr. verkefni sem á að ljúka fyrir árslok 2024.
Krog segir að fyrr á árinu 2018 hafi Løkke gert leynilegt samkomulag við dönsku flokkana sem þá stóðu að danska varnarmálasamningnum um að opna að nýju dönsku herstöðina í Grønnedal á Suður-Grænlandi. Ákveðið var að loka henni þegar Arktisk Kommando danska hersins flutti þaðan til Nuuk, höfuðstaðar Grænlands. Eftir lokunina bárust fréttir um að kínverskir fjárfestar hefðu áhuga á að kaupa Grønnedal-stöðina og nýta hana fyrir ferðamenn.
Løkke kom í veg fyrir öll slík kínversk áform þar sem í ljós kom að danski herinn hafði enn þörf fyrir stöðina. Segir Krog að þar séu nú þrír menn og geymslur fyrir búnað til flóðavarna.
Hann spyr hvort líta megi á þessar tvær aðgerðir sem eins konar rauð strik gegn íhlutun Kínverja í Grænlandi.
„Eins og ég man þetta var það raunsætt mat okkar að enn ættum við hagsmuna að gæta á Grænlandi,“ svarar Lars Løkke Rasmussen og brosir. Í flugvallarmálinu hafi atvinnulíf á Grænlandi skipt miklu máli.
Hann telur að við allar ákvarðanir af þessum toga sé mikilvægt að líta jafnframt til öryggismálanna. Það verði að tryggja að samstarfið innan danska konungsríkisins sé þannig að samstarf við Kínverja falli innan ramma stefnunnar í öryggismálum. Í því efni beri að líta til stjórnskipulegrar skyldu sem Færeyingar og Grænlendingar verði að virða á meðan lönd þeirra séu hluti konungsríkisins (d. rigsfællesskabet).
Ný norðurslóðastefna
Nú fylgir danska ríkið norðurslóðastefnu sem var birt árið 2011 og gilti til loka 2020. Síðan hefur danska ríkið ekki haft neina norðurslóðastefnu. Grænlendingar vilja fá frest til að móta eigin utanríkisstefnu áður en þeir koma að mótun norðurslóðastefnu fyrir danska ríkið. Dregur brátt að því að Grænlendingar kynni stefnu sína og þá kemur að stefnunni fyrir allt ríkið.
Krog segir að bæði í Nuuk og Þórshöfn ríki það viðhorf að það séu fyrst og síðast Danir sem vilji sameiginlega stefnu. Hún sé ekki endilega það sem eigi að binda Grænlendinga og Færeyinga.
Krog spyr utanríkisráðherrann hvernig eigi að tryggja að hvarvetna innan danska konungsríkisins standi stjórnvöld að baki norðurslóðastefnunni.
„Það gerum við með því að ræða saman. Það er enginn sem dregur í efa að við þurfum að móta norðurslóðastefnu (d. arktisk strategi). Þá vita einnig allir hvaða formreglur gilda og hvað stjórnarskráin segir. Formlega séð er utanríkisstefnan í höndum dönsku ríkisstjórnarinnar. Þetta er bakgrunnurinn. Metnaðarmál okkar er að tryggja stuðning við stefnuna hvarvetna innan ríkisins. Sama metnað hafa stjórnvöld í Nuuk og Þórshöfn.“
Danski utanríkisráðherrann fagnar því að Grænlendingar vilji móta eigin utanríkisstefnu. Krog segir að það kunni þó að vera honum áhyggjuefni að einn góðan veðurdag vilji Grænlendingar standa einir og óstuddir í utanríkismálum.
„Það yrði auðveldara að bregðast við hvers konar erlendum hagsmunum á Grænlandi með Grænland sem hluta af danska konungsríkinu. Ég lít málið þessum augum. Með fullri virðingu fyrir því að Grænlendingar ráði eigin örlögum yrði grænlenskt samfélag, án allra tengsla við Danmörku og með öll stórveldasamskipti í eigin höndum, berskjaldaðra Grænland en það sem við þekkjum nú,“ segir Lars Løkke Rasmussen.
Hann fagnar því einnig að Grænland verði minna háð fjárstuðningi (d. bloktilskuddet) frá Dönum, hann nemur nú meira en helmingi af opinberum tekjum Grænlands.
„Án tillits til þess hvaða skoðun maður hefur á sjálfstæði Grænlands er nauðsynlegt að efnahagslíf Grænlands verði sjálfbærara. Það er grundvallar forsenda vilji þjóð einhvern tíma öðlast sjálfstæði. Jafnvel þótt þeir kjósi að vera áfram innan ríkjasambandsins – sem ég vona að þeir geri – er skynsamlegt að efla sjálfbærni eigin efnahags. Mikilvæg leið til þess er að Grænland efli tengsl sín við Bandaríkin og ESB,“ segir Løkke.
Krog segir að Lars Løkke Rasmussen nefni ekki Bandaríkin og ESB af tilviljun. Fyrir þremur árum hafi Bandaríkjamenn opnað ræðisskrifstofu í Nuuk og síðar á þessu ári ætli ESB að opna þar skrifstofu.
Þá rifjar Krog upp að Íslendingar haldi úti ræðisskrifstofu í Nuuk og þar sé einnig að finna ræðismenn fyrir 10 önnur lönd: Bretland, Finnland. Frakkland, Kanada, Noreg, Rússland, Spánn, Suður-Kóreu, Svíþjóð og Þýskaland.
„Hvað ef Kínverjar vilja opna ræðisskrifstofu í Nuuk?“ spyr Krog.
„Já, þá verður eitthvað um að tala,“ svarar Lars Løkke Rasmussen og brosir.
„Ætlar þú bara að segja: Já, þetta hljómar eins og góð hugmynd?“ spyr Krog.
„Ég vil ekki fjalla um eitthvað sem kynni að gerast, Kínverjar hafa ekki lagt fram neina slíka fyrirspurn. Á henni verður tekið, komi hún fram.“