
Danska ríkisstjórnin leggur til að útgjöld til varnarmála hækki um 12,8 milljarða danskra króna aukalega á næstu sex árum. Tillagan var kynnt af Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra og Claus Hjort Frederiksen varnarmálaráðherra miðvikudaginn 11. október. Hún verður grundvöllur viðræðna við aðra flokka um það sem kallað er forsvarsforlig á dönsku, það er þverpólitískt samkomulag um hernaðarútgjöldin.
Ætlunin er að nota 20% af útgjöldunum til kaupa á tækjum og búnaði. Ríkisstjórnin hefur ekki kynnt hvernig aflað verður tekna til að standa undir áætluninni,
Løkke færir þau rök fyrir auknum útgjöldum til hermála að Rússar ögri meira en áður, óstöðugleiki ríki á Miðjarðarhafi og meiri ógn en áður stafi af netárásum.
„Við getum ekki lengur gengið að öryggi okkar sem vísu,“ sagði forsætisráðherrann: „Það kostar meira en áður að tryggja frið og öryggi.“
Þá er ætlunin að Danir láti meira að sér kveða en til þessa í verkefnum undir merki NATO og vegna átaka um heim allan.
Þess vegna er ætlunin að koma á fót nýju „hreyfanlegu og sjálfstæðu“ stórfylki með um 4.000 hermönnum sem má senda á vettvang komi til átaka. Stórfylkið á að verða tilbúið til átaka árið 2024 og ráða yfir brynvörðum farartækjum, loftvarnapöllum, skriðdrekavörnum og stórskotavopnum.
Þá á að 500 manna hersveit að verða til taks „með mjög skömmum fyrirvara“ á heimavelli þurfi lögregla á aðstoð að halda til verndar og varðstöðu.
Um borð í freigátur flotans verða sett skammdræg og langdræg flugskeyti af SM2 og SM6 gerð. Þau má nota gegn flugvélum og flugskeytum. Freigáturnar fá einnig nýjan búnað til varnar gegn kafbátum og tundurskeytum. Þá verður tækjakostur um borð í þyrlum flotans einnig endurnýjaður til að styrkja þær til kafbátaleitar og hernaðar.
Þá er ætlunin að herinn og heimavarnarliðið geti virkja um það bil 20.000 hermenn ásamt um 4.000 manna varalið.
Fyrir utan þetta eru fjárveitingar til kaupa á F-35 orrustuþotum.
Danska ríkisstjórnin vill auka sýnileika heraflans á norðurslóðum. Þess vegna er ætlunin að fjölga hermönnum og auka eftirlit og björgunarviðbúnað á Grænlandi og í Færeyjum. Í þessu sambandi hefur verið hætt við að hætta við sparnaðaráform sem snerust um að leggja einu af fjórum eftirlitsskipum af svonefndri Thetis-gerð. Þessi skip eru á vakt á hafsvæðunum umhverfis Ísland.
Þá er ætlunin að Danir auki aðgerðir sínar gegn mengun í hafinu við Grænland og til hreinsunar á gömlum bandarískum herstöðvum á Grænlandi.