
Danska ríkisstjórnin hefur ákveðið að festa kaup á 27 bandarískum F-35 Joint Strike Fighter- orrustuþotum fyrir 20 milljarða d.kr., 380 milljarða ísl. kr. Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra kynnti ákvörðunina á blaðamannafundi fimmtudaginn 12. maí. Hún verður nú lögð fyrir þing til samþykktar.
Bandaríska fyrirtækið Lockheed Martin smíðar vélarnar en F-35 var fyrst flogið árið 2006. Hámarkshraði er 1,6 Mach og vélin kemst í 15.240 km. Nú eru vélarnar eða verða í notkun í Bandaríkjunum, Bretlandi, Ástralíu, Noregi, Hollandi og Ítalíu. Í danska flughernum eru nú F-16 orrustuþotur.
„Með nýjum vélunum getum við sinnt sömu verkefnum og til þessa. Við getum gætt eigin loftrýmis, bægt frá hættu á heimaslóð og við getum lagt okkar af mörkum gegn því að stríð og átök úti í hinum stóra heimi magnist,“ sagði forsætisráðherrann og áréttaði nauðsyn þess að Danir réðu yfir nútíma orrustuþotum til að „verjast sjálfir“.
Innan danska varnarmálaráðuneytisins hefur verið lagt mat á þrjár tegundir orrustuþotna: Boeing F-18 Super Hornet og Eurofighter Typhoon frá Airbus auk F-35. Í öllum tilvikum þótti F-35 bera af hinum vélunum, það er við mat á strategískum og hernaðarlegum þáttum, hagkvæmni og tækni.
Þegar litið er til kaupverðs vélanna, viðhaldskostnaðar o. fl. er talið að heildarfjárhæð kostnaðar í 30 ár verði 56,4 milljarðar d. kr. rúmlega 1000 milljarðar ísl. kr. en í mesta lagi 71,5 milljarðar d. kr. 1360 milljarðar ísl. kr.
Markmið ríkisstjórnarinnar er að unnt verði að fjármagna kaupin F-35 vélanna innan ramma varnarmálaráðuneytisins á næstu 10 árum. Segist Peter Christensen varnarmálaráðherra vona að vegna kaupanna þurfi ekki að þrengja að aðgerðahluta fjárlagaramma ráðuneytisins. Hann sagði að F-35 væri hagkvæmasti kosturinn vegna þess meðal annars að vélarnar væru fullkomnari en vélar keppinautanna og því væri unnt að ná sama árangri með færri vélum en ella væri.
F-35 vélarnar eru háværari en aðrar vélar sem voru til athugunar. Norðmenn hafa ákveðið að kaupa 52 F-35 vélar og til að koma til móts við nágranna Ørland-flugstöðvarinnar hafa þeir ákveðið taka eignarnámi 175 hús þar sem hávaði frá vélunum er mestur.
Heimild: Jyllands-Posten