Home / Fréttir / Danska lögreglan ráðþrota vegna nafnbreytinga brottvísaðra Rúmena

Danska lögreglan ráðþrota vegna nafnbreytinga brottvísaðra Rúmena

Svona búa Rúmenar um sig í garði í Kaupmannahöfn.
Svona búa Rúmenar um sig í garði í Kaupmannahöfn.

Danska lögreglan stendur ráðþrota gagnvart rúmenskum brotamönnum sem bannað hefur verið að koma til Danmerkur en snúa þangað að nýju undir nýju nafni. Dómsmálaráðherra Danmerkur segist ætla að ræða málið við rúmensk stjórnvöld.

Allt bendir til að auðvelt sé fyrir rúmenska afbrotamenn sem vísað hefur verið á brott frá Danmörku að snúa þangað aftur. Þeir fara til Rúmeníu skipta um nafn, fá ný persónuskilríki og búa að nýju um sig í Danmörku. Það kemst ekki upp um þá í nýja gervinu nema danska lögreglan handtaki þá og rannsaki fingraför þeirra eða lífsýni.

Þetta segir danski ríkislögreglustjórinn í svari sem Søren Pape Poulsen, dómsmálaráðherra Dannerkur, hefur sent Evrópunefnd danska þingsins.

Ráðherrann ætlar að ræða þetta vandamál við rúmensk yfirvöld. Hann segir að ekki sé unnt að una við þetta ástand.

Skipti maður um nafn í Rúmeníu fær hann sjálfkrafa ný rúmensk persónuskilríki (id-kort) sem dugar til að ferðast til Danmerkur. Skilríkin hafa ekki að geyma fingraför eða önnur rafræn einkenni eins og er að finna í vegabréfum.

Danski þjóðarflokkurinn segir að ekki ætti að vera unnt að komast inn í landið aðeins með id-kort. Eigi að leyfa það verði að tryggja að lögregla geti leitað í öllum gagnagrunnum sem tengjast nútíma vegabréfi.

Umræður í Danmörku hafa mjög snúist um heimilislaust fólk frá Austur-Evrópu og betlara, einkum rúmenska. Nú í júní afgreiddi danska þingið stjórnarfrumvarp með hraði, enda naut það einnig stuðnings jafnarmanna og þjóðarflokksmanna, um að herða refsingu við „ótrúverðugu“ betli úr 7 daga skilorðsbundnu fangseli í 14 daga óskilorðsbundið fangelsi.

Rúmenar sem hljóta dóm af þessu tagi verða reknir úr landi og bannað að snúa að nýju til Danmerkur.

Nú óttast ýmsir að þessi herta refsilöggjöf ýti undir að fleiri brottreknir Rúmenar skipti bara um nafn og snúi að nýju til Danmerkur.

Heimild: Altinget.dk

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …