Home / Fréttir / Danska leyniþjónustan hefur vaxandi áhyggjur af gervifréttamennsku á netinu

Danska leyniþjónustan hefur vaxandi áhyggjur af gervifréttamennsku á netinu

 

Þessar síður eru frá USA Daily News sem skráðar eru í Veles í Makedóníu. Þarna er til dæmis gervifrétt um að lögreglan í New York ætli að handtaka Hillary Clinton og önnur um að Michelle Obama ætli að gefa móður sinni eftirlaun sín.
Þessar síður eru frá USA Daily News sem skráðar eru í Veles í Makedóníu. Þarna er til dæmis gervifrétt um að lögreglan í New York ætli að handtaka Hillary Clinton og önnur um að Michelle Obama ætli að gefa móður sinni eftirlaun sín.

Sérfræðingar telja að ungt fólk hafi vaxandi hagnað af því að framleiða gervi- eða falskar fréttir, segir í Jyllands-Posten. Jafnframt segir PET, danska leyniþjónustan eða eftirgrennslanastofnun dönsku lögreglunnar, að hún hafi nú auga með gervifréttamennsku.

Fimmtudaginn 15. desember var tilkynnt að Facebook mundi grípa til ráðstafana í því skyni að stöðva miðlun gervifrétta á samfélagsmiðlinum. Málið snýst ekki aðeins um að koma í veg fyrir að ungt fólk reyni að hafa áhrif á skoðanir lesenda gervifrétta sem það setur á netið. Sérfræðingar segja að blekkingariðjan við dreifingu efnis snúist að verulegu leyti um að ná í skjótfenginn gróða.

Peter Kruse, ut-sérfræðingur við öryggisþjónustuna CSIS, segir við Jyllands-Posten að blekkingarsmiðir geti haft allt að 50.000 d.kr. (825.000 ísl. kr) á mánuði meðal annars fyrir að búa til gervifréttir.

„Umsvifin á þessu sviði vaxa mjög hratt. Einkum erlendis þar sem hraðinn er mikill. Við höfum einnig kynnst þessu í Danmörku og í ljós kemur að næsta auðvelt er að afla sér nokkurra tekna á þennan hátt,“ segir hann.

Peter Kurse segir að með því að dreifa gervifréttum á Facebook geti menn stuðlað að því að þeir fái tekjur í gegnum það sem kallað er auglýsinganetkerfið, það er útbreiðsla gervifréttanna þar gefi eitthvað í aðra hönd. Þetta hafi til dæmis gerst í bandarísku kosningabaráttunni þar sem upplýst hafi verið um að nokkrir táningar hafi dreift gervifréttum um Hillary Clinton og tölvubréfamál hennar.

„Þess vegna er gott að Facebook grípur nú il gagnaðgerða. Ég held hins vega ekki að það skipti sköpum. Fyrirbrigðið lifir áfram og eykst á komandi árum,“ segir Peter Kruse. „Þetta er eitt af helstu vandamálunum um þessar mundir þegar rætt er um rafræna þróun.“

Í Jyllands-Posten segir að umfang gervifrétta í netheimum sé orðið svo mikið að það ógni sjálfri samheldni Vesturlanda.

Þá er bent á að sænska öryggisþjónustan, Säpo, óttist að með gervifréttum takist að splundra sænsku samfélagi. Säpo bendir sérstaklega á sívaxandi umsvif Rússa á þessu sviði. Í Danmörku hefur eftirgrennslanaþjónusta hersins, Forsvarets Efterretningstjeneste, FE, vakið mál á þessu í ógnarmati sínu og nú gerir eftirgrennslanaþjónusta lögreglunnar, Politiets Efterretningstjeneste, PET, það einnig:

„PET fylgist með hvernig ógn frá erlendum ríkjum þróast og gerir sé í því sambandi ljóst að unnt er að beita ýmsum aðferðum og tækjum til að hafa áhrif í Danmörku, meðal annar með notkun samfélagsmiðla,“ segir í skriflegri umsögn PET.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …