
Claus Hjort Frederiksen (69 ára) varð varnarmálaráðherra Danmerkur fyrir um það bil sex vikum. Fyrsta blaðaviðtal við hann í þessu ráðherraembætti birtist í Berlingske Tidende föstudaginn 13. janúar. Ráðherrann hefur undanfarið fengið kynningu á stöðu mála hjá yfirstjórn danska hersins, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna og sendiherrum erlendra ríkja í Kaupmannahöfn. Boðskapur hans í viðtalinu er skýr:
„Við Dönum blasir alvarleg og hrollvekjandi mynd þegar litið er til þess sem ógnar landi og þjóð. Okkur er óhjákvæmilegt að horfast í augu við það í Danmörku að það steðjar ógn í einni eða annarri mynd að okkur öllum. Og við verðum að bregðast við því.“
Ráðherrann bendir á að Rússar vinni nú að því að koma upp nýjum eldflaugakerfum í Kaliningrad, hólmlendu sinni milli Litháens og Póllands, og með flaugunum megi ná til Kaupmannahafnar. Þá segir hann einnig tölvu- og netárásir ógna Dönum.
Claus Hjort Frederiksen telur að rússneskir tölvuþrjótar sem starfi með stuðningi ríkisins séu í árásarstöðu gagnvart sjúkrahúsum, innviðum og dreifikerfi rafmagns. Markmiðið sé að stofna til vandræða við að innköllun sjúklinga og hjúkrun.
„Þetta er ein aðferðanna sem nota má til að grafa undan stöðugleika í löndum okkar og undan lýðræðinu á mjög áþreifanlegan og augljósan hátt og þetta gerir enn harðari kröfur en áður til þess að við getum varist slíkum árásum,“ segir Claus Hjort Frederiksen og heldur áfram:
„Það eru fyrst og fremst hópar rússneskra tölvuþrjóta sem standa að slíkum aðgerðum með stuðningi ríkisins, í mínum huga er þetta hrollvekjandi tilhugsun. Takist mönnum í raun að lama þjóðlífið með því að ala á hræðslu og öryggisleysi hjá almenningi þá hrófla menn við öllum grunnstoðum lýðræðisins.“
Fyrir fáeinum dögum birti eftirgrennslana þjónusta danska hersins, Forsvarets Efterretningstjeneste, mat sem sýndi að tölvu- og netárás væri helsta ógn sem steðjaði að Dönum.
Claus Hjort Frederiksen leggur áherslu á að víða um heim séu stundaðar tölvuárásir. Hann telur þó rússneska, ríkisstyrkta hópa tölvuþrjóta helstu ógnina á þessu sviði við Danmörku.