
Danir eru í fremstu röð þeirra sem hallmæla Rússum segir Mikhail Vanin, sendiherra Rússa í Kaupmannahöfn, við Politiken föstudaginn 27. maí.
„Danir stunda sí og æ einhvers konar and-rússneska baráttu. Þegar gripið er til viðskiptaþvingana gegn Rússum eru Danir jafnan meðal þeirra fyrstu. Séu hermenn sendir að landamærum Rússlands eru Danir fremstir í flokki,“ segir sendiherrann við blaðið.
Sendiherrann er ekki þeirrar skoðunar að Danir séu eindregnir fjandmenn en þeir séu í hópi þjóða sem séu „mjög fjandsamlegar“.
Fyrir nokkru ákvað danska stjórnin að send 150 hermenn til Eystrasaltslandanna. Var það liður í ákvörðun á vettvangi NATO um að efla varnir austur-evrópskra ríkja innan bandalagsins.
Mikhail Vanin segir að tiltækið hafi ekki fallið í góðan jarðveg í Kreml.
„Þetta er ögrun og Rússar munu að sjálfsögðu svara henni. Ekki með árás heldur með því að efla eigin varnir og varnarmátt. Við getum ekki sætt okkur við þessa ákvörðun.
Við verðum að ljúka þessu skeiði fjandskapar – þar er fyrst og síðast við Dani að sakast,“ segir sendiherrann.
Politiken bar ummæli sendiherrans undir Michael Aastrup Jensen, talsmann Venstre-flokksins, stjórnarflokksins, í utanríkismálum. Hann sagði:
„Pútín ber einungis virðingu fyrir einu og það er að láta hart mæta hörðu. Tökum við ekki til varna fyrir Eystrasaltsríkin, gerir það enginn.“