Home / Fréttir / Danmörk: Ný úttekt á áherslum í utanríkis- og varnarmálum

Danmörk: Ný úttekt á áherslum í utanríkis- og varnarmálum

Peter Taksøe-Jensen
Peter Taksøe-Jensen

Á sama tíma og Danir segja skilið við friðsamlega tíma og við tekur ógnvænlegri tímar verja þeir minni fjármunum til hervarna, utanríkisþjónustunnar og þróunaraðstoðar en áður. Þar með minnka áhrif Dana.

Þetta er kjarninn í 90 blaðsíðna skýrslu sem Peter Taksøe-Jensen sendiherra kynnti dönsku ríkisstjórninni mánudaginn 2. maí. Honum hafði verið falið að gera úttekt og skrifa skýrslu um stöðu Danmerkur á alþjóðavettvangi með vísan til stjórnmála og hermála.

„Fjárveitingar til utanríkisráðuneytisins hafa minnkað um rúmlega þriðjung undanfarin 15 ár. Útgjöldin til varnarmála hafa verið lækkuð um 2,7 milljarða [d.kr]. Þar að auki hefur þróunaraðstoð farið niður í 0,7%.Staðan sem við okkur blasir er sú að verkefnum fjölgar og ástand öryggismála versnar en minna fé er fyrir hendi til að framkvæma stefnuna í utanríkis-, varnar- og öryggismálum,“ segir Peter Taksøe-Jensen.

Miklar umræður eru nú innan danska stjórnkerfisins og á stjórnmálavettvangi um hve mikið skuli auka fjárveitingar til hersins. Þar skortir 20 til 30 milljarða d.kr. til að kaupa nýjar orrustuþotur.

Peter Taksøe-Jensen segir Dana þekkta fyrir að nýta fjármuni til öryggis- og varnarmála vel og beri t. d. að hafa það í huga við ákvarðanir um kaup á nýjum orrustuvélum, þær kosti vissulega mikið en peningarnir séu vel nýttir.„Danska utanríkisþjónustan og herinn eru þekkt fyrir að skila árangri og við fáum tiltölulega mikið fyrir peningana. Það segir sig hins vegar sjálft að áhrif okkar minnka vegna minni útgjalda,“ segir Peter Taksøe-Jensen. „Í hreinskilni sagt er hætta á að við smyrjum of þunnt ef við gætum okkar ekki.“

Hann segir Dani einnig svíkja alþjóðlega bandamenn sína auki þeir ekki útgjöldin, einkum til varnarmála.„Það gengur ekki til lengdar að Bandaríkjamenn greiði 73% af veislukostnaðinum [fjárlögum NATO]. Að lokum ræður öryggistrygging af hálfu Bandaríkjamanna því að Rússar hugsa sig um tvisvar sinnum,“ segir í skýrslunni.

Þar er jafnframt bent á að Danir séu ein af sex NATO-þjóðum (þær eru 28) sem ekki hafi ákveðið að auka útgjöld til varnarmála.

Peter Taksøe-Jensen segir að Danir eigi að hverfa frá draumsýninni að þeir geti haldið úti sendiráðum í öllum 193 ríkjum heims. Sum landanna skipti Dani ekki miklu og ætti að fela ESB að sinna sendiráðssambandi við þau.

Hann segir að Danir eigi að láta fimm meginsjónarmið ráða mótun og framkvæmd utanríkis- og varnarmálastefnu sinnar:

Í fyrsta lagi eigi Danir að beina athygli sinni að friðsamlegri og sjálfbærri þróun í nágrenni konungsríkisins á norðurslóðum og Eystrasaltssvæðinu. Í öðru lagi eigi Danir að vera virkir þátttakendur í viðleitni ESB og NATO í þágu friðar og stöðugleika. Þar að auki eigi Danir að koma í veg fyrir stjórnlausan straum farand- og flóttafólks, vinna gegn loftslagsbreytingum og efla atvinnulífið til útflutnings og til að ná í erlenda fjárfesta með því að ástunda það sem hann kallar økonomisk diplomati.

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …