
Danmörk hefur hrapað niður listann yfir ESB-lönd sem njóta mestra vinsælda hjá hælisleitendum. Á fyrstu sex mánuðum ársins voru 16 lönd fyrir ofan Danmörk á listanum frá Eurostat, hagstofu ESB, sem sýnir vinsældir landa í þessu tilliti með vísan til íbúafjölda þeirra
Danmörk hefur ekki verið svo neðarlega á þessum lista í 10 ár. Hælisumsóknir eru aðeins hlutfallslega færri í nokkrum Austur-Evrópulöndum, Bretlandi og Portúgal. Árið 2015 var Danmörk í níunda sæti á listanum.
Inger Støjberg, útlendingamálaráðherra úr Venstre-flokknum, fagnar þessari þróun og þakkar hana hertum reglum stjórnvalda gegn hælisleitendum, þar á meðal minni félagslegum greiðslum og afnámi réttarins til fjölskyldusameiningar auk landamæraeftirlitsins.
„Við höfum hert reglurnar í 65 liðum sem hefur minnkað aðdráttarafl okkar fyrir hælisleitendur. Þetta gerir okkur kleift að verja meiri kröftum til að senda þá út á vinnumarkaðinn sem eru komnir auk þess að gera þeim skylt að kynnast þjóðlífinu, tungumálinu og samfélagsgildum,“ segir ráðherrann.
Árum saman hafa Danir tekið á móti um 500 svonefndum kvótaflóttamönnum að tillögu Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Danska ríkisstjórnin féll frá móttöku þessa fólks í fyrra og um óákveðinn tíma. Nú segja fulltrúar stjórnarandstöðunnar að vegna fækkunar almennra hælisleitenda eigi að opna að nýju fyrir kvótaflóttamenn til Danmerkur.
Inger Støjberg útlendingamálaráðherra hefur þó engin áform um að kalla eftir og bjóða kvótaflóttamönnum til landsins. Vísar ráðherrann til þess hve illa hefur gengið að aðlaga þá mörgu sem fengið hafa hæli undanfarin ár að dönsku samfélagi.
Heimild: Jyllands Posten