Home / Fréttir / Danmörk: Hugað að nánara samstarfi lögreglu og hers vegna hryðjuverkaógnar

Danmörk: Hugað að nánara samstarfi lögreglu og hers vegna hryðjuverkaógnar

Danska lögreglan í átökum í Kristjaníu.
Danska lögreglan í átökum í Kristjaníu.

Sérþjálfaðir danskir hermenn eða elítu-hermenn eins og Danir kalla þá aðstoðuðu aðgerðasveit lögreglunnar, AKS, 1. september 2016 þegar hún skaut og felldi Mesa Hodzic (25 ára) í Kastrup við Kaupmannahöfn.

Frá þessu var skýrt í Radio24syv föstudaginn 3. mars og í Jyllands-Posten laugardaginn 4. mars er haft eftir heimildarmanni að 3 af 12 manna flokki lögreglumanna sem eltu Hodzic uppi hafi verið frá Søværnets Frømandskorps, Froskmannasveit flotans.

Daginn áður en hann var felldur hafði Hodzic skotið á tvo lögregluþjóna og grandalausan vegfaranda í Kristjaníu. Liðsmenn aðgerðasveitar lögreglunnar skutu á og drápu Hodzic eftir að hann hafði skotið að lögreglunni. Danski ríkissaksóknarinn segir að lögreglan hafi farið að lögum við aðgerðina.

AKS-sveitin heyrir undir eftirgrennslanaþjónustu lögregluna Politiets Efterretningstjeneste (PET). Ekki hefur verið upplýst hvers vegna PET óskaði eftir aðstoð frá froskmannasveitinni. PET hefur áður fengið aðstoð sveitarinnar en hún er veitt að fengnu samþykki dómsmálaráðuneytisins.

Í Jyllands-Posten segir að þetta dæmi frá 1. september 2016 sé ef til vill til marks um frekara samstarf milli dönsku lögreglunnar og hersins. Um þetta sé meðal annars fjallað nú þegar dómsmálaráðuneytið leggi grunn að framtíðarstefnu fyrir lögregluna. Þar sé tekið mið að því sem gerðist í Nice og París auk reynslu Dana sjálfra af minni hryðjuverkum við Krudttønden og bænahús gyðinga í Kaupmannahöfn. Jafnframt sé almennt mat lagt á hryðjuverkaógnina.

Í blaðinu er meðal annars vísað til svars sem dómsmálaráðherrann, íhaldsmaðurinn Søren Pape Poulsen, gaf danska þinginu. Hann vildi ekki skýra frá því hve oft á árunum 2014 til 2016 ráðuneytinu hefði borist beiðni frá lögreglunni um heimild til að leita „sérstakrar aðstoðar“ frá hernum. Hann segir hins vegar í skriflegu svari sínu að ráðuneytið hugi að því hvernig samstarfi lögreglu og hers skuli háttað í framtíðinni.

„Það verður meðal annars skoðað í ljósi þeirra verkefna sem yfirvöld hafa orðið að glíma við hér á heimavelli og annars staðar í Evrópu undanfarin ár. Hryðjuverkaógnin gegn Danmörku hefur lengi verið alvarleg og yfirvöld fylgjast náið með breytingum á mynd ógnarinnar til að meta hana rétt og viðbrögð við henni,“ segir ráðherrann.

Í Frakklandi, Þýskalandi, Bretlandi og Noregi hafa verið teknar ákvarðanir eða þær eru í vinnslu um aukið samstarf lögreglu og hers í ljósi hryðjuverka undanfarin ár.

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …