Home / Fréttir / Danmörk: Herskylda lengist – nær til kvenna

Danmörk: Herskylda lengist – nær til kvenna

Samkomulag náðist milli dönsku þingflokkanna að kvöldi þriðjudagsins 30. apríl um breytingar á danska hernum og fjárframlögum til hans.

Ákveðið var að fjölga mönnum í 1. stórfylki landhersins úr 4.000 í 6.000. Þar að auki verða keypt loftvarnakerfi, skamm- og langdræg á jörðu niðri, til varnar gegn flaugum sem skotið er á Danmörku.

Varnarmálaráðherrann Troels Lund Poulsen sagði á blaðamannafundi með forystumönnum þingflokkanna að nauðsyn væri að festa fé í nútímalegum og öflugum varnarkerfum til að tryggja öryggi Danmerkur og leggja meira af mörkum í þágu NATO.

Þá var samið um að fjölga þeim sem kallaðir eru til herþjónustu árlega úr 5.000 í 7.500. Herskylda er lengd úr 4 mánuðum í 11 og herskylda kvenna kemur til sögunnar 1. janúar 2027.

Um herskyldu kvenna var gert sérstakt samkomulag því að fulltrúar  Danmarksdemokraterne (Inger Støjberg) og Liberal Alliance (Alex Vanopslagh) vildu ekki eiga aðild að því.

Yfirstjórn hersins getur kallað konur til herþjónustu með sömu skilyrðum og karla. Nú eru um 25% liðsmanna í danska hernum konur. Í Noregi og Svíþjóð gegna konur herskyldu.

Undanfarin ár hefur ekki þurft að þvinga fólk til að gegna herskyldu í Danmörku. Talið er að til þess kunni að koma núna þegar herþjónustutíminn næstum þrefaldast. Áfram er markmiðið að fá sem flesta til herþjónustu af fúsum og frjálsum vilja en reynist nauðsynlegt að beita kvaðningu gilda sömu skilyrði um hana gagnvart konum og körlum.

Fyrstu fimm mánuði þjónustunnar hljóta nýliðar grunnþjálfun en síðari sex mánuðina sinna þeir ýmsum verkefnum við aðgerðir hersins og á vegum NATO.

Þeir kunna að starfa við nýju loftvarnakerfin sem komið verður fyrir í Danmörku eða taka þátt í 1. stórfylki landshersins auk þess að verða þátttakendur í hraðliði NATO sem kalla má út með skömmum fyrirvara.

Almennt hafa danskir nýliðar val um hvort þeir sinni verkefnum undir merkjum NATO. Þetta getur þó breyst ef ástand öryggismála breytist. Þá getur varnarmálaráðherrann ákveðið að afnema frjálsa valið.

 

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …