
Dönsk útlendingayfirvöld skýrðu frá því föstudaginn 23. september að í ágúst hefðu 284 sótt um hæli í Danmörku og er það lægsta tala hælisleitenda í einum mánuði í fimm ár. Inger Støjberg, ráðherra útlendingamála, segir að þetta sýni að reglur til að takmarka komu ólöglegra innflytjenda til landsins og hert landamæravarsla skili árangri.
„Eigin takmarkanir okkar ásamt átaki annarra Evrópuríkja og sameiginlegar aðgerðir okkar innan ESB hafa minnkað þrýsting hælisleitenda á Danmörku,“ sagði ráðherrann.
Á fyrstu átta mánuðum ársins sóttu um 5.000 manns um hæli í Danmörku en um 21.300 sóttu um hæli þar á árinu 2015 og árið 14.500 voru hælisleitendur þar 14.800.
Vegna fækkunar hælisleitendanna hafa dönsk yfirvöld lokað tjaldbúðum fyrir aðkomufólkið sem voru reistar í nóvember 2015.
Støjberg sagðist enn vilja fækka þeim sem leita hælis í Danmörku. „Við verðum að vera undir það búin að bregðast við ef glufur myndast að nýju á landamærum Evrópu og þess vegna höfum við nýlega lagt fram nýjar tillögur í 44 liðum um aðgerðir í útlendingamálum.“
Þar er meðal annars gert ráð fyrir „neyðarlokun“ landamæranna til að hefta för hælisleitenda í „hættuástandi“. Auk þess eru hert skilyrði til að fá „aðlögunarstyrki“ og gerðar breytingar til að erfiðara verði fyrir útlendinga í Danmörku á fá þar leyfi til fastrar búsetu.
Þá hafa dönsk stjórnvöld kynnt áform um að hætta í bili að taka ár hvert á móti 500 „kvótaflóttamönnum“ frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Áformin hafa ekki verið formlega samþykkt en þau njóta stuðnings Danska þjóðarflokksins og Jafnaðarmannaflokksins, stærsta stjórnarandstöðuflokksins.