Home / Fréttir / Danmörk: Flugherinn hefur fullt eftirlit með rússneskum hervélum

Danmörk: Flugherinn hefur fullt eftirlit með rússneskum hervélum

Úr eftirlits- og vaktstöð danska flughersins í Karup
Úr eftirlits- og vaktstöð danska flughersins í Karup

Í Berlingske Tidende birtist nú greinarflokkur um hvernig danski herinn sem minnkað hefur jafnt og þétt undanfarin ár er búinn undir aukið áreiti af hálfu Rússa. Þar hefur ekki síst reynt á flugherinn en laugardaginn 25. júlí birti blaðið úttekt að varnarviðbúnaði hans.

„Með tölvuskjái sem skjöld og með aðstoð ratsjáa kringum Eystrasalt og í Noregi fylgist flugherinn með næstum öllu sem kann að vera á flugi umhverfis Danmörku,“ segir Christian Brøndum blaðamaður í upphafi langrar greinar sinnar.

Blaðamaðurinn segir frá heimsókn til Air Control Wing, eftirlits- og vaktstöðvar flughersins í herflugstöðinni Karup á miðju Jótlandi. Þaðan er fylgst með því sem gerist utan lofthelgi Danmerkur frá Norðursjó norður að strönd Noregs og á Eystrasalti frá Finnska flóa og síðan suður og vestur í átt að Danmörku.

Þegar Rússar senda flugvélar út á Eystrasalt hefja þær sig oft á loft í St. Pétursborg fara um Finnska flóa þar sem þær sjást á ratsjá í Eistlandi, upplýsingar eru sendar þaðan til annarra NATO-landa, þar á meðal til Skylight sem er einkennismerki fyrir stöð danska flughersins í Karup. Blaðamaðurinn segir að Svíar muni hugsanlega tengjast þessu kerfi á næsta ári. Kerfið eigi að vera nægilega öflugt til að útiloka með öllu að rússneskar flugvélar komist óséðar leiðar sinnar. Sjö vaktir skipaðar 11 mönnum hver tryggja varðstöðu allan sólarhringinn, allan ársins hring. Er þetta eina vaktstöð danska flughersins sem er ætíð opin.

Í Karup er tekin ákvörðun um hvort orrustuþotur séu sendar í veg fyrir flugvélar á leiðina í átt að Danmörku. Þar er um að ræða tvær F-16 orrustuþotur í flugherstöðinni Skrydstrup á Suður-Jótlandi.

Segir blaðamaðurinn að fyrir einum mánuði hafi til dæmis tvær rússneskar Backfire-sprengjuþotur flogið í fylgd orrustuvéla út á Eystrasalt frá Kaliningrad.

Hringt er frá Karup til Skrydstrup til að virkja F-16 þoturnar sem eru almennt komnar á loft innan 15 mínútna frá símtalinu. Þegar flugmennirnir halda af stað eiga þeir opin talstöðvarsamskipti við stjórnstöðina. Það er talið æskilegt að rússnesku flugmennirnir heyri samtölin og átti sig þannig á að fylgst sé með þeim sem nálgast danska lofthelgi.

Sé slökkt á ratsjársvara um borð í rússnesku flugvélunum lætur stöðin í Karup borgaralegu flugstjórnina vita af stað og flughæð Rússanna. Venjulegar ratsjár nema ekki hæðina. Stundum er orrustuvél send á loft og hún látin halda sér þétt við rússnesku vélina. Ratsjársvari orrustuvélarinnar gerir borgaralegum flugstjórnarmönnum þá kleift að fylgjast með ferðum rússnesku vélarinnar.

Max A.L.T. Nielsen hershöfðingi er yfirmaður danska flughersins. Hann segir að fjöldi rússneskra flugvéla við danska lofthelgi sem kalli á viðbrögð af hálfu Dana sé álíka mikill í ár og í fyrra en þá voru orrustuþotur sendar á loft að meðaltali einu sinni í viku til að fylgjast með ferðum rússneskra flugvéla.

„Hið „venjulega ástand“ hefur greinilega tekið á sig nýja mynd. Við ráðum við það með viðbúnaði okkar. Við erum jú ekki að tala um neina innrás. Þeir sýna getu sína til flugs og við sýnum að við höfum tök á ástandinu,“ segir hershöfðinginn.

Stundum má sjá fjögurra hreyfla rússneskar Bear-sprengjuvélar í nágrenni Danmerkur. Þetta eru stórar, langdrægar sprengjuvélar sem upphaflega voru smíðaðar á sjötta áratugnum eins og B 52 sprengjuvélar Bandaríkjamanna sem enn eru í notkun.

„Áður fyrr sáum við ekki þessar vélar oft. Venjulega er Bear flogið frá Múrmansk suður með strönd Noregs en við sjáum yfirleitt Backfire-sprengjuþotur, fylgdar- og eftirlitsflugvélar á Eystrasalti. Vélarnar eru ekki meira eða minna ógnandi en aðrar vélar, við höfum bara séð aðeins fleiri og nokkrar aðrar gerðir en áður. Þetta liggur einfaldlega fyrir en breytir hættumatinu ekki á neinn hátt,“ segir hershöfðinginn.

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …