
Þjóðkunn dönsk kona, Lisbeth Zornig, fyrrverandi umboðsmaður barna í Danmörku, núverandi baráttukona fyrir réttindum barna og rithöfundur, var föstudaginn 11. mars dæmd fyrir að taka þátt í smygli á fólki þegar hún 7. september 2015 bauð sýrlenskri fjölskyldu á leið um Danmörku til Svíþjóðar far í bifreið sinni.
Dómari í Nykøbing í Falster, suðaustur Danmörku, dæmdi Zornig til að greiða 22.500 d.kr. (um 430.000 ISK) í sekt.
Zornig bauð sýrlensku fjölskyldunni far í Rødbyhavn. Þangað komu margir sem voru á leið frá Þýskalandi til Svíþjóðar áður en danska ríkisstjórnin gaf fyrirmæli um landamæravörslu snemma í janúar 2016. Zornig ók fjölskyldunni til Kaupmannahafnar. „Mér fannst þetta eins og að bjóða puttalingi far,“ sagði Zornig í réttinum.
Mikael Rauno Lindholm, eiginmaður Lisbeth Zornig, fékk jafnháa sekt fyrir að hafa boðið sömu sýrlensku fjölskyldu kaffi og kökur á heimili hjónanna, fyrir að hafa ekið henni á brautarstöð og keypt fyrir hana lestarmiða til Svíþjóðar.
Fyrir rétti sagðist hann hafa hringt í lögregluna og spurt hana hvort hann mætti sinna fjölskyldunni á þennan hátt án þess að brjóta gegn lögunum. „Vakthafandi lögreglumaður sagði mér að þetta væri góð spurning en hann gat ekki svarað henni.“ sagði Lindholm, sem er blaðamaður, við dómarann.
Hjónin áfrýjuðu dóminum skömmu eftir að hann féll. Þau höfnuðu ásökunum um að þau hefðu komið að smygli á fólki. Þau hefðu gert það eitt sem margir í þeirra sporum hefðu gert.
Þá sögðust þau áfrýja til að ekki skapaðist með dóminum yfir þeim fordæmi sem yrði öðrum að falli. Loks væri óviðunandi að hljóta svo háan sektardóm þegar nýlega hefði fallið dómur í Randers á Jótlandi. Þar hefði 41 árs maður verið dæmdur til að greiða 5.000 d. kr. sekt fyrir að aka Afgana frá Flensborg til Grenaa.
„Það er sérkennilegt að á einum stað á landinu skuli maður dæmdur í refsingu sem er fimm sinnum þyngri en refsing fyrir sambærilegan verknað annars staðar í landinu,“ sagði Listbeth Zornig.
Tölfræði dönsku lögreglunnar sýnir að á tímabilinu frá september 2015 til og með febrúar 2016 hafi 279 einstaklingar verið kærðir í Danmörku fyrir að aðstoða farandfólk, þessi tala var 140 ári fyrr.
Svíar tóku á móti 163.000 hælisumsóknum árið 2015. Danir eru helmingi færri en Svíar tóku á móti 21.000 hælisumsóknum 2015, 44% fleiri en árið 2014. Vegna hertrar vörslu á landamærum bæði Svíþjóðar og Danmerkur hefur dregið mjög úr straumi hælisleitenda til landanna.