Home / Fréttir / Danir yfirgefa Europol – halda aðgangi að gagnagrunnum

Danir yfirgefa Europol – halda aðgangi að gagnagrunnum

Höfuðstöðvar Europol í Haag, Hollandi.
Höfuðstöðvar Europol í Haag, Hollandi.

Danir yfirgáfu Europol, Evrópulögregluna, mánudaginn 1. maí en rétt fyrir brottförina náðist samkomulag um aðgang þeirra að gagnagrunnum lögreglunnar. Ákvörðunina um að slíta samstarfinu við Europol má rekja til niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu meðal Dana í desember 2015 þegar þeir ákváðu að halda fast í fyrirvara sinn gagnvart samstarfi ESB-ríkjanna á sviði dóms- og lögreglumála.

Unnið hefur verið að því undanfarin misseri að tryggja Dönum áfram einhvers konar tengsl við Europol. Laugardaginn 29. apríl var skrifað undir samning sem gerir ráð fyrir að danska lögreglan hafi áfram aðgang að gagnagrunnum Europol með milligöngu dönsku mælandi fulltrúa í höfuðstöðvum Europol í Haag í Hollandi.

Danska lögreglan og Europol munu halda áfram að skiptast á upplýsingum og niðurstöðum rannsókna. Þá verður einnig veitt aðstoð til sameiginlegra rannsókna með Dönum ef svo ber undir.

Europol er skylt að afhenda upplýsingar „sé það algjörlega óhjákvæmilegt til að koma í veg fyrir yfirvofandi líflát”.

Danir mega senda áheyrnarfulltrúa án atkvæðisréttar á stjórnarfundi Europol.

Framkvæmdarstjórnarmenn ESB og Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Dana, lýstu laugardaginn 29. apríl ánægju sinni með niðurstöðuna á fundi í Brussel í tengslum við leiðtogaráðsfund ESB sem þá var haldinn.

Forsætisráðherrann lagði áherslu á að ekki væri um „samhliða-samning“ að ræða sem gerði Dönum kleift að vera áfram í Europol þótt þjóðaratkvæðagreiðsla mælti fyrir um annað. „Við erum að fara úr Europol. Við erum ekki lengur í Europol,“ sagði ráðherrann.

Danska þingið og ESB-þingið samþykktu samninginn fimmtudaginn 27. apríl. ESB-åríkin veittu skriflegt samþykki sitt föstudaginn 28. apríl.

Samstarfsamningurinn verður tekinn til endurskoðunar í framkvæmdastjórn ESB árið 2020 og hann verður aðeins framlengdur verði Danir áfram í ESB og aðilar að Schengen-samstarfinu.

Nýjar reglur um umboð Europol taka gildi 1. maí 2017. Þær voru samþykktar 11. maí 2016 og miða að því að auðvelda Europol að takast á við hryðjuverkamenn, tölvubrot og aðra skipulagða glæpastarfsemi. Í krafti nýju reglnanna verður auðveldara en áður fyrir Europol að koma á fót sérhæfðum hópum til að bregðast tafarlaust við hryðjuverkaógn eða annarri alvarlegri, skipulagðri glæpastarfsemi.

Heimild: EUobserver, Europol

 

 

Skoða einnig

Tortryggni í garð Moskvuvaldsins vex í gömlu Sovétlýðveldunum

Stuðningur við forsystusveit Rússlands hefur hrapað í nágrannalöndum landsins. Íbúar landanna eru tortryggnir í garð …