Home / Fréttir / Danir vilja halda áfram landamæravörslu gagnvart Þýskalandi

Danir vilja halda áfram landamæravörslu gagnvart Þýskalandi

Grænsekontrollen forlænges frem til 12. maj Hjemmeværnet starter grænsekontrol

Sex aðildarríki Schengen-samstarfsins búa sig undir að halda áfram gæslu á innri landamærum Schengen-svæðisins næstu sex mánuði eftir 12. maí 2018 þegar núgildandi undanþágutími endar.

Inger Støjberg, útlendingamálaráðherra Dana, segir að ekki séu nein rök fyrir að falla frá landamæragæslunni. Ræddi hún framhald gæslunnar við ráðherra annarra Schengen-ríkja sem fylgja svipaðri landamærastefnu og Danir á fundi í Brussel fimmtudaginn 8. mars. Taldi hún sæmilega samstöðu meðal ríkjanna eftir að fundinum lauk.

Schengen-ríkin sex eru: Danmörk, Svíþjóð, Þýskaland, Austurríki, Noregur og Frakkland.

Útlendingamálastjóri ESB, Dimitris Avramopoulos, lýsti efasemdum um nauðsyn þess að halda landamæravörslunni áfram. Hann kysi frekar að löggæsla yrði aukin þar sem flestir fara yfir landamæri.

Hann sagði framkvæmdastjórnina vilja að sérstökum aðgerðum yrði hætti á innri landamærum Schengen-ríkjanna. Hann sagðist búast við venjulegu ástandi „bráðlega“.

Grípi ríki til sérstakra aðgerða á landamærum sínum verða þau að tilkynna eðli þeirra til framkvæmdastjórnar ESB einum mánuði áður en þær koma til framkvæmda.

Ríki verða að rökstyðja aðgerðir sínar með vísan til Schengen-reglnanna. Þegar Danir framlengdu gæslu sína árið 2017 vísuðu þeir ekki aðeins til mikils straums af farandfólki til lands síns eins og þeir gerðu upphaflega árið 2015 heldur bentu þeir einnig á hryðjuverkahættuna.

Með því að nefna þá hættu virkjuðu dönsk yfirvöld nýja grein í Schengen-samkomulaginu sem veitir þeim heimild til viðbótar eftirlitsaðgerða.

Danir hafa haldið úti gæslu á landamærum sínum frá 4. janúar 2016.

 

 

 

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …