Home / Fréttir / Danir vilja fjölga njósnurum með Rússum og kjarnorkuherafla þeirra

Danir vilja fjölga njósnurum með Rússum og kjarnorkuherafla þeirra

Rússneski flotinn við æfingu á Eystrasalti.
Rússneski flotinn við æfingu á Eystrasalti.

Leyniþjónusta danska hersins (Forsvarets Efterretningstjeneste, FE) vill fjölga starfsmönnum sem hafa áhuga og þekkingu á þróun hermála í Rússlandi, einkum rússneska kjarnorkuheraflans segir í Jyllands-Posten (JP) miðvikudaginn 17. ágúst.

Frá því að Berlínarmúrinn féll haustið 1989 hefur starfsmönnum FE sem hafa þróunina í Rússlandi sem sérsvið fækkað jafnt og þétt. Nú er ætlunin að snúa af þeirri braut.

Í auglýsingu frá FE er óskað eftir starfsumsóknum frá fólki sem kann rússnesku og þar segir: Hefur þú áhuga á eldflaugum og kjarnorkuvopnum? Hefur þú einnig vald á rússnesku?

Vitnað er til nokkurra sérfræðinga sem segja að atvinnuauglýsingin beri með sér að danska njósnastofnunin vilji auka getu sína til að fylgjast með því sem gerist í Rússlandi. Dönum sé þetta nauðsynlegt vegna nýs hættumats í öryggismálum og yfirgangsstefnu Rússa meðal annars í Úkraínu.

Peter Viggo Jakobsen, lektor við danska Forsvarsakademiet, Varnarmálaháskólann, segir við JP:

„Þetta snýst um að endurheimta eitthvað af sérþekkingunni á Rússlandi sem ekki var lengur þörf þegar dregið var úr kalda-stríðs-vörnum og beinar landvarnir Danmerkur minnkuðu. Nú er að nýju þörf á fólki með þessa sérþekkingu bæði í Danmörku og NATO.“

Flemming Splidsboel Hansen, sérfræðingur við Dansk Institut for Internationale Studier, Dönsku utanríkismálastofnunina, minnir á að fyrir utan að Rússar hafi margoft rofið lofthelgi NATO-ríkja hafi þeir einnig sett á svið og æft eldflaugaárás á Borgundarhólm, innrás í Danmörku og kjarnorkuárás á Stokkhólm og segir:

„Menn hafa að sjálfsögðu nokkrar áhyggjur af þessu, einnig innan FE. Í þessum opinberu atvinnuauglýsingum felast einnig skýr skilaboð til Rússa.“

Minnt er á að í fyrra hafi rússneski sendiherrann í Kaupmannahöfn varað við því að dönsk herskip kynnu að verða fyrir árás rússneskra kjarnorkuvopna tækju Danir beinan þátt í að mynda eldflaugavarnarkerfi NATO. Kristian Søby Kristensen. sérfræðingur við Center for Militære Studier, Miðstöð herfræðirannsókna, í Kaupmannahafnarháskóla, telur aukinn viðbúnað FE beina afleiðingu meiri spennu í samskiptum ráðamanna á Vesturlöndum og í Rússlandi.

Aðrir danskir sérfræðingar taka í sama streng og segja að gagnvart yfirgangssamari Rússum með stórveldisdrauma verði menn að tileinka sér ýmsa starfshætti sem tíðkuðust í kalda stríðinu. Bein afleiðing þess sé að FE ráði fleiri sérfræðinga um rússnesk málefni til starfa hjá sér.

Lars Findsen, forstjóri FE, vill ekki tjá sig neitt um atvinnuauglýsingarnar en segir ekkert leyndarmál að FE sem hafi það hlutverk innan danska stjórnkerfisins að stunda eftirgrennslan erlendis hljóti að hafa auga með þróuninni í Rússlandi eins og í öðrum löndum miðað við forgang vegna danskra hagsmuna hverju sinni.

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …