Home / Fréttir / Danir utanveltu í ESB-varnarsamstarfi – Norðmenn standa ESB nær

Danir utanveltu í ESB-varnarsamstarfi – Norðmenn standa ESB nær

 

Norskur hermaður á æfingu.
Norskur hermaður á æfingu.

Danir samþykktu á sínum tíma fyrirvara vegna aðildar sinnar að ESB sem veldur því meðal annars að þeir geta ekki þátt í skipulagða varnarsamstarfinu, PESCO, sem hafið er á formlegum grunni milli 23 ESB-ríkja eftir að utanríkisráðherrar þeirra rituðu mánudaginn 13. nóvember undir skuldbindingu um aðild að samstarfinu. Anders Samuelsen, utanríkisráðherra Dana, stóð utan hópsins.

Í danska blaðinu Jyllands-Posten var nýlega vakið máls á hve undarleg staða Dana væri við Eystrasalt. Þeir væru eina þjóðin á því svæði sem stæði utan PESCO. Af Norðurlöndunum eru Svíar og Finnar með í hópnum um varnarsamstarfið og leggja mikla áherslu á það þar sem þeir standa utan NATO. Þá ræða Norðmenn heima fyrir um hvernig þeir eigi að tengjast PESCO.

Danskur herfræðingur segir við Jyllands-Posten að hringi einhver til Norðmanna og spyrji hvort þeir vilji til dæmis taka þátt í aðgerðum ESB gegn sjóránum, geti Norðmenn sagt já en Danir yrðu að segja nei.

Kristian Søby Kristensen, aðstoðarforstjóri Center for Militære Studier við Københavns Universitet, minnir á að fyrst snúist PESCO-samstarfið um framleiðslu og kaup á vopnum en ekki hvernig eigi að nota þau. Danir leggi sitt af mörkum til samstarfsins í NATO en innan ESB hafi enginn áhuga á Dönum í hernaðarlegu tilliti. Norðmenn geti lagt meira af mörkum til varnarsamstarfs undir merkjum ESB en Danir.

„Það er óljóst hvort Norðmönnum verði sem EES-þjóð boðin aðild að PESCO. Eitt er þó víst að af nýjum markmiðum ESB í öryggismálum leiðir að nauðsynlegt verður að skilgreina stöðu Norðmanna,“ segir dálkahöfundurinn Morten Langfeldt Dahlback í norska Adresseavisen.

Norska fréttastofan NTB  segir að bjóða megi þriðja landi aðild að PESCO enda leggi það verulegan skerf af mörkum.

Fimm ESB-þjóðir standa utan PESCO: Bretar, Danir, Írar, Portúgalir og Maltverjar.

Áður en Timo Soini, utanríkisráðherra Finna, flaug til Brussel til að rita undir PESCO-skjalið sendi finnska utanríkisráðuneytið frá sér tilkynningu um að nýja varnarsamstarfið falli að stefnu Finna um að þetta ESB-samstarf beri að auka.

Í Svíþjóð hafnaði Stefan Löfven forsætisráðherra því að Svíar væru að samþykkja aðild að yfirþjóðlegum herafla. Hann sagði málið snúast um öryggi sænskra borgara og það ykist með því að Svíar og ESB styrku eigin varnarmátt.

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …