
Aðeins er um eitt ár liðið frá því að Danir kynntu síðast stefnu í utanríkismálum, engu síður hefur danska stjórnin nú lagt fram nýja utanríkis- og öryggismálastefnu sem tekur mið af þróun mála frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu 24. febrúar 2022.
Nýja stefnan er kynnt á vefsíðunni altinget.dk þriðjudaginn 16. maí. Þar er vitnað í aðfararorð eftir Lars Løkke Rasmussen utanríkisráðherra sem segir að Rússar virði ekki alþjóðalög, Kínverjar vilji meira olnbogarými og Bandaríkjamenn beini athygli sinni meira að Asíu. Danir verði að taka mið af þessu og vaxandi spennu og keppni í heiminum.
Hér verður stiklað á stóru í kaflanum um stöðuna í evrópskum öryggismálum.
Árásarstríð Rússa gegn Úkraínu hefur grafið undan öryggi í Evrópu og heiminum öllum. Það ríkir mun meira öryggisleysi, meiri tortryggni og átakahugur en áður. Það verður því áfram forgangsmál hjá Dönum að styðja baráttu Úkraínumanna fyrir fullveldi og landsyfirráðum. Með nýjum Úkraínusjóði verður auðveldara að miðla stuðningi frá Dönum til Úkraínumanna. Láta ber Úkraínustjórn í té hergögn og stuðla að aðild Úkraínu að NATO.
Við endurreisnina í Úkraínu á danskt atvinnulíf að vera í fararbroddi og aðstoða við að endurreisa orkukerfið, vatnsveitur og framleiðslu á matvælum. ESB á að leggja sig fram um að styðja við endurreisn Úkraínu svo að þjóðin geti gengið í sambandið.
Efla ber evrópskar og danskar varnir. Árið 2020 verði 2% af vergri landsframleiðslu Dana varið til varnarmála. Innrás Rússa krefst þess að NATO þróist á þann veg að Rússum sé veitt meira mótvægi á Eystrsaltssvæðinu, í Austur-Evrópu, á norðurslóðum (d. Arktis) og á Norður-Atlantshafi.
Afnám danska varnarmálafyrirvarans gagnvart ESB leiðir til öflugra varnarsamstarfs Dana innan ESB. Athygli verði beint að netöryggi, fjölþáttaógnum og hreyfanleika herafla auk fjölþjóðlegra rannsókna.
Rússland verði áfram einangrað. Danir geta stuðlað að því með því að framfylgja ströngustu refsiaðgerðum og styðja lýðræðislegt frumkvæði, frjálsa fjölmiðla og frjáls félagasamtök. Þá eiga Danir að leggja þeim lið sem vinna að því að stefna rússneskum ráðamönnum fyrir alþjóðadómstóla.
Efld norræn samvinna í öryggismálum er nú staðreynd eftir aðild Finna að NATO og væntanlega aðild Svía. Ásamt norrænum bandamönnum sínum bera Danir ábyrgð á að stuðla að öryggi á Eystrasaltssvæðinu og í Eystrasaltslöndunum.
Vegna stríðsins í Úkraínu hefur óvissa um fyrirætlanir Rússa aukist. Samvinna við þá í Norðurskautsráðinu hefur rofnað. Rússar eiga mikilla hagsmuna að gæta á norðurslóðum en Kínverjar eygja þar hagsmuni til langs tíma. Aðild Finna og Svía að NATO gerir norðurslóðir að öruggari stað fyrir Dani en vinna verður markvisst að því að tryggja að norðurslóðir verði áfram lágspennusvæði. Það verður að tryggja í samvinnu við ríkisstjórnirnar á Grænlandi og í Færeyjum.
ESB láti meira að sér kveða á nágrannasvæðum. Rússar beita sér markvisst gegn því að Moldóva, Georgía og löndin á Vestur-Balkanskaga halli sér að ESB og stöðugleika. Jafnframt reyna Kínverjar að koma ár sinni fyrir borð í löndunum með mannvirkjagerð. Danir eiga þess vegna að styðja endurnýjun á stjórnmála- og hagkerfum landanna svo þau fái aðild að ESB. Þá skal einnig efla samvinnu við Norður-Afríkuríki.
Danir eiga að efla geóplótíska stöðu ESB og getu til að beita ríki refisaðgerðum. Þá eiga Danir einnig að hafa frumkvæði að nýjum samningi um evrópsk stjórnmál. Markmið hans yrði að aðildarríkjum ESB fjölgaði, þau kynnu þá að verða rúmlega 30.
Átta vörður danskrar utanríkisstefnu:
- Danir styðja áfram varnarstríð Úkraínu og aðild landsins að evrópskri samvinnu.
- Við munum efla varnir og öryggi Danmerkur og eiga þátt í fælingarmætti NATO.
- Danir munu áfram styðja nágranna ESB í austri og á Vestur-Balkanskaga.
- Við munum takast á við hnattrænar afleiðingar árásarstríðs Rússa.
- Við munum efla alþjóðlega þátttöku um heim allan og standa að nýjum bandalögum og samstarfi á jafnréttis grundvelli.
- Við munum almennt efla viðnámsþrótt Danmerkur og Evrópu.
- Danir eiga að þróa styrkleika sinn á grænum sviðum, tækni og heilbrigði auk annarra sviða.
- Vinna skal að því að efla og vinna með dönskum fyrirtækjum við nýjar geópólitískar aðstæður.