Home / Fréttir / Danir stórauka rannsóknir á öryggismálum norðurslóða

Danir stórauka rannsóknir á öryggismálum norðurslóða

Danski Varnarmálaháskólinn
Danski Varnarmálaháskólinn

 

Í nýlegri grein á fréttasíðunni Arctic News kemur fram að danski Varnarmálaháskólinn (d. Forsvarsakademiet) hefur komið á laggirnar rannsóknarsetri í öryggismálum á norðurslóðum.  Sérstaklega verða rannsökuð áhrif aukins áhuga ríkja á svæðinu á hagsmuni Danmerkur.

Í rannsóknarsetrinu, sem á ensku nefnist The Center for Arctic Security Studies (CASS), eiga að starfa fimm manns.  Tveir herfræðingar og þrír fræðimenn á öðrum sviðum.  Steen Kjærgaard, sérfræðingur í danska hernum, er yfirmaður setursins.  Hann segir að rannsóknir á vegum setursins auðveldi Varnarmálaháskólanum að veita stjórnvöldum ráð vegna þróunar öryggismála á norðurslóðum.

Á vefsíðunni  Arctic News er einnig vitnað í Rasmus Leander Nielsen. Hann starfar hjá Ilisimatusarfik háskólanum á Grænlandi en hefur nú verið ráðinn til CASS.  Nielsen telur einn helsta kost við setrið að það laði að sér sérfræðinga í málefnum norðurslóða og ýti undir rannsóknir þeirra. Þar með öðlist Danir og stjórnvöld þeirra mun betri þekkingu á svæðinu.  Þá staðfesti stofnun setursins áhuga stjórnvalda í Danmörku á þessum slóðum.

Í grein Arctic News er vísað í nýlegt öryggismat leyniþjónustu danska hersins.  Þar kemur m.a. fram að spenna hafi magnast á svæðinu að undanförnu.  Ástæða þessa er aukin samkeppni Bandaríkjamanna, Rússa og Kínverja.  Þessi aukni áhugi ríkjanna þriggja (og annarra) á svæðinu er sögð ástæðan fyrir því að stjórnvöld í Kaupmannahöfn hafi lagt meira fé í verkefni er tengjast öryggismálum við heimskautsbaug.  Breyttar áherslur stjórnvalda endurspeglist í orðum Trine Bramsen varnarmálaráðherra Danmerkur.  Að hennar sögn hefur öryggisumhverfið á norðurslóðum breyst og því sé mikilvægt fyrir Dani að átta sig betur á nýrri stöðu mála.

Í lok greinarinnar í Arctic News er minnst á norðurslóðastefnu dönsku stjórnarinnar.  Núverandi stefna var gefin út árið 2011 og gildir þar til í ár.  Unnið er að nýrri stefnu í stjórnkerfinu sem ætlað er að gefa út síðar á árinu.

Nýlega gaf danska stofnunin Center for Militære Studier sem er rannsóknarsetur innan Institut for Statskundskap við Kaupmannahafnarháskóla út rannsóknarritgerð eftir Jon Rahbek-Clemmensen, lektor við Institut for Militære Operationer í Varnarmálaháskólanum. Ritgerðin heitir Nye militære spændinger i Arktis og Nordatlanten og má nálgast hana hér:  CMS_Baggrundspapir_2020__1_-_Nye_militære_spændinger_i_Arktis_og_Nordatlanten(2).pdf

Ráðstefnur Varðbergs.

Undanfarin ár hefur Varðberg í samvinnu við aðra haldið ráðstefnur og fundi um breytta tíma í öryggismálum á norðurslóðum. Myndbönd frá ráðstefnunum og fundunum er að finna hér: https://vimeo.com/user57082466

 

Höfundur:

Kristinn Valdimarsson

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …