Home / Fréttir / Danir stofna embætti sendiherra gagnvart hnattrænum risunum í Kísildal

Danir stofna embætti sendiherra gagnvart hnattrænum risunum í Kísildal

Casper Klynge sendiherra.
Casper Klynge sendiherra.

Danska ríkisstjórnin hefur ákveðið að Casper Klynge (43 ára) sem nú er sendiherra í Indónesíu verði fyrsti danski sendiherrann í Kísildal (Silicon Valley) í Kaliforníu og komi fram fyrir Danmörku gagnvart alþjóðafyrirtækjum sem þar starfa á borð við Facebook, Google, Apple.

Í upphafi árs tilkynnti Anders Samuelsen, utanríkisráðherra Dana, að breyting í þessa veru væri á döfinni í utanríkisþjónustunni. Með nýju sendiherrastöðunni er viðurkennt segir nýskipaði sendiherrann að alþjóðastjórnmál snúist ekki lengur aðeins um samband milli ríkja og alþjóðastofnanir. Viðurkenna verði að risarnir í tækniheiminum séu orðnir svo stórir að þeir komi fram í eigin nafni, velta þeirra sé mikil, meiri en landsframleiðsla margra þjóða.

Starf sendiherrans verði eins og gagnvart öðrum, jákvætt þegar litið sé alls þess sem tæknin býður og einkennist af gagnrýni þegar litið sé til siðferðilegra þátta sem snerta reglur í netheimum fyrir utan skatta- og fjárhagsmálefni.

Á vefsíðunni altinget.dk kemur fram að Danir séu fyrstir til að skipa sérstakan sendiherra með þetta verkefni. Sjá þeir sérstakt tækifæri fyrir sig að vera brautryðjendur í þessu efni. Telur Klynge sendiherra að fyrir hendi sé áhugi hjá stjórnendum hnattrænna fyrirtækja að eiga bein samskipti við sendimenn einstakra ríkja. Hann búist við að margar dyr standi sér opnar þótt hann sitji ekki endilega á kaffispjalli við Zuckerberger hjá Facebook eða Musk hjá Tesla.

Hlutverk sendiherrans verður tvíþætt að halda fram hagsmunum Dana og danskra fyrirtækja og fylgjast með tækniþróuninni. Hann segist munu beita sér fyrir kynningu á dönsku þjóðfélagi sem háþróuðu og opnu fyrir nýjungum og þess vegna séu þar góð skilyrði til að reyna nýja tækni og finna lausnir. Facebook og Apple hafi þegar ákveðið að opna gagnamiðstöðvar í Danmörku og unnið sé að gerð tilraunastöðvar fyrir dróna í Odense. Þá íhugi Danir að koma á tilraunasvæði fyrir ökumannslausar bifreiðar í Vesthimmerland.

Þá minnir sendiherrann á mikilvægi nýrrar tækni á sviði öryggismála. Samfélagsmiðlarnir komi til dæmis greinilega oft við sögu þegar rætt sé um hryðjuverkamenn og ódæði þeirra. Tölvuvarnir og öryggi skipti sífellt meira máli. Starf nýja sendiráðsins snúist því einnig um öryggismál.

 

 

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …