
Danska ríkisstjórnin hefur ákveðið að stíga nýtt skref í hernaðarlegum stuðningi sínum við stjórnvöld og her Úkraínu, danskir herþjálfarar og kennarar taka að sér að þjálfa úkraínska hermenn bæði í Danmörku og í Bretlandi.
Í samtali við Jyllands-Posten miðvikudaginn 10. ágúst segir Morten Bødskov, varnarmálaráðherra Dana, að á næstunni sendi Danir 130 þjálfara hersins til þátttöku í bresku herþjálfunarverkefni. Þar verði meðal annars tekið til við grunnþjálfun á hermönnum frá Úkraínu, sumir þeirra hafi enga eða litla reynslu af hermennsku.
Ráðherrann segir að meðal annars verði kennd meðferð skotvopna, bardagaaðferðir í þéttbýli, taktískar hernaðaraðgerðir á vígvellinum, skyndihjálp, hvernig leita skuli skjóls í stórskotaliðsárás og farið yfir lög sem gilda um her og hernað.
Þá hafi verið rætt við stjórnvöld í Úkraínu um að hermenn þaðan komi til þjálfunar og æfinga í Danmörku. Í fyrstu snúi boð Dana að því að veita herforingjum frá Úkraínu menntun, ráð og leiðsögn. Jafnframt verði rætt um leiðir til að Danir aðstoði við að efla heimavarnarlið í Úkraínu.
Danir hafa ákveðið að verja 100 m. d.kr. um 1900 m. ísl.kr. til þessa verkefnis til viðbótar við fyrri vopnaaðstoð til Úkraínu.
Fimmtudaginn 11. ágúst standa Danir, Bretar og Úkraínumenn fyrir mikilli ráðstefnu í Kaupmannahöfn þar sem varnarmálaráðherrar og aðrir fulltrúar 26 ríkja koma saman í Kristjánsborgarhöll til að skýra frá ákvörðunum sínum um fjárhagslegan eða annan stuðning við Úkraínu.
Til þessa hafa slíkar ráðstefnur einkum snúist um vopn og annan herbúnað en nú verður lögð áhersla á þjálfun hermanna frá Úkraínu, sprengjuleit og hreinsun auk áforma um að nýjar hergagnasmiðjur rísi í Evrópu.
Morten Bødskov segir að þjálfun hermanna frá Úkraínu snúist meðal annars um að kenna þeim á fullkomnu hátæknivopnin sem þeim hafa borist frá Vesturlöndum á fyrstu sex mánuðum átakanna. Þá segir hann að Svíar hafi ákveðið að leggja til 120 herþjálfara til þjálfunarbúðanna í Englandi og Finnar fjóra.
Ráðherrann segir að Danir hafi allt frá árinu 2015 starfað með Bretum við þjálfun á hermönnum í Úkraínu auk þess sem danskir ráðgjafar hafi starfað í landinu.
Morten Bødskov segir að átökin í Úkraínu fari nú á nýtt stig og þess vegna sé þörf fyrir annars konar aðstoð og stuðning en áður. Hann telur að um löng átök verði að ræða. Fyrir utan það sem snýr að hernaðinum þurfi nú að ræða hvernig staðið verði að endurreisn eftir allar hörmungarnar sem Rússar hafi nú þegar valdið í Úkraínu og gagnvart íbúum landsins. Ráðherrann nefnir sérstaklega þúsundir af sprengjum sem Rússar skilji eftir sig og þann viðbjóðslega hátt sem þeir hafi á að setja þær í leikföng, barnaherbergi og ísskápa til að valda almennum borgurum sem mestum skaða.
Í lok samtalsins segir danski varnarmálaráðherrann að nauðsynlegt sér fyrir Dani að láta enn meira af mörkum til að tryggja að Pútin vinni ekki stríðið:
„Það er stríð í Evrópu og Pútin má ekki sigra. Árásin sem Pútin stendur fyrir á íbúa Úkraínu gengur í öllum grundvallar atriðum gegn þeirri Evrópu sem við mótuðum eftir fall Berlínarmúrsins,“ segir Morten Bødskov við Jyllands-Posten.