Home / Fréttir / Danir standa frammi fyrir algjörlega nýrri ógn frá Rússum segir njósnastofnun hersins

Danir standa frammi fyrir algjörlega nýrri ógn frá Rússum segir njósnastofnun hersins

Lars Findsen, forstjóri njósnastofnunar danska hersins.
Lars Findsen, forstjóri njósnastofnunar danska hersins.

Danir standa frammi fyrir algjörlega nýrri ógn frá Rússum og öðrum erlendum þjóðum sem með markvissum tölvuárásum og miðlun blekkinga munu reyna að hafa áhrif í Danmörku og setja svip sinn á opinberar umræður um mikilvæg samfélagsmál.

Þessa viðvörun er að finna í nýju áhættumati sem Lars Findsen, forstjóri eftirgrennslanaþjónustu danska hersins, Forsvarets Efterretningstjeneste (FE), kynnti þriðjudaginn 20. desember og ber heitið Efterretningsmæssig Risikovurdering 2016. Þetta er mat dönsku njósnastofnunarinnar á helstu ógnum sem kunna að steðja að öryggi Dana.

„Fyrir hendi er hætta á að erlend ríki nýti sér tölvuárás til að reyna að hafa áhrif á skoðanamyndun í öðrum löndum. Þetta á til dæmis við um Rússland,“ segir Lars Findsen.

Hann bendir meðal annars á árás tölvuþrjóta á Demókrataflokkinn í Bandaríkjunum þar sem Barack Obama forseti og yfirvöld hafa sakað Rússa um að reyna með leynd að hafa áhrif á bandarísku kosningabaráttuna. Tölvuþrjótarnir láku tölvubréfum fram að forsetakosningunum í Bandaríkjunum 8. nóvember 2016. Var þeim ætlað að hafa skoðanamyndandi áhrif á kjósendur.

FE telur að Danir hafi ekki enn sætt slíkri tölvuárás en hins vegar sé óhjákvæmilegt að beina meiri athygli en áður að þessari hættu. Rússar kynnu til dæmis að sjá sér hag af því að hafa áhrif á hugsanlega þjóðaratkvæðagreiðslu um varnarskyldu Dana innan ESB eða um risaframkvæmdir Rússa vegna Nord Stream 2 gasleiðslunnar um Eystrasalt til Þýskalands.

Lars Findsen telur að Rússar reyni eftir ólíkum leiðum að skapa sundrung milli NATO-landanna og ala á trúnaðarbresti gagnvart getu bandalagsins til að standa við varnarskuldbindingar sínar í þágu Eystrasaltslandanna. Hann segir að Rússar beiti oft sérsniðnum aðferðum gagnvart einstökum þjóðum og verði Danir að hafa vakandi athygli á slíkum herferðum.

Forstjóri njósnastofnunar sænska hersins, Gunnar Karlson, varaði Svía nýlega við sambærilegum hættum og FE í Danmörku nefnir. Svíar ákváðu þriðjudaginn 20. desember að leyfa ekki hafnaraðstöðu á Eystrasaltseyjunni Gotlandi vegna Nord Stream 2.

Í hættumati FE árið 2016 eru þessi atriði tíunduð sem sérstök ógn gegn Danmörku:

Um er að ræða alvarlega hryðjuverkaógn gegn Danmörku og öðrum vestrænum löndum og hún stafar enn fyrst og fremst frá Daesh (Ríki íslams) og al-Kaída.

Rússar hervæðast þar á meðal á Eystrasaltssvæðinu.

Enn mun ríkja óvissuástand í Mið-Austurlöndum og þaðan munu áfram streyma flóttamenn.

Huga verður sérstaklega að þróun mála á norðurslóðum eftir því sem Rússar auka hernaðarumsvif á svæðinu.

Í hættumati FE segir:

„Rússar hefja til dæmis þrýsting með herferð í ríkisreknum rússneskum miðlum sem beint er að vestrænum almenningi, þá beita þeir einnig miðlun á vegum rússneskra hugveitna eða rannsóknastofnana auk opinberra upplýsingaleiða eins og ókeypis fréttagátta, bloggara og álitsgjafa sem segjast vera óháðir.

Við þetta bættast síðan tölvuárásir og sérgreind miðlun á upplýsingum sem eiga að hafa áhrif á almenningsálitið.“

Rússar reyna einnig að færa sér í nyt ósamlyndi innan Evrópusambandsins til að draga úr vægi sameiginlegrar ESB-stefnu gagnvart Rússlandi. Þetta á ekki síst við þegar um er að ræða framlengingu á efnahagsþvingunum gagnvart Rússlandi og mótun stefnu ESB í orkumálum.

Þá er bent á að Rússar hafi árum saman lagt sig fram um að efla þekkingu og búnað til átaka í netheimum og þeir ráði því yfir háþróaðri tækni á þessu sviði sem notuð sé tölvunjósna innan stjórnkerfa Vesturlanda hvort heldur um stjórnmál eða hermál.

Heimild: Jyllands-Posten

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …