Home / Fréttir / Danir snúast gegn netógninni sem varnarmálaráðherrann segir stríð

Danir snúast gegn netógninni sem varnarmálaráðherrann segir stríð

Trine Bramsen, varnarmálaráðherra Dana.
Trine Bramsen, varnarmálaráðherra Dana.

Leyniþjónusta danska hersins, Forsvarets Efterretningstjeneste (FE), birti fimmtudaginn 10. desember árlegt hættumat sitt. Í tilefni af því sagði danski varnarmálaráðherrann. Trine Bramsen, að netógnin gegn Danmörku af hálfu erlendra ríkja væri svo alvarleg að það ætti að kalla hana „stríð“.

Tölvuárásir á Danmörku verða sífellt háþróaðri og fagmannlegri segir varnarmálaráðherrann. Hún segir að efla þurfi netvarnir. Einnig er ný netöryggisstefna í mótun og hert löggjöf. Danskur öryggismálasérfræðingur hafnar því að unnt sé að skilgreina tölvuárásirnar sem stríð.

Í grein í Jyllands-Posten er haft eftir Trine Bramsen að stöðugar og alvarlegar netárásir á Danmörku af hálfu tölvuþrjóta í þágu erlendra ríkisstjórna og erlendra ríkja eins og Rússlands, Kína, Írans og Norður-Kóreu séu „stríð“ og megi líkja þeim við sprengjuvélar sem ráðist á dönsk fyrirtæki eða mikilvæg grunnvirki eins og brýr eða orkumannvirki.

Í blaðinu er vitnað í áhættumatið þar sem danska njósnastofnunin varar við því að „erlend ríki hafa getu til að framkvæma eyðileggjandi netárás á Danmörku“ og ríki eða tölvuþrjótar „framkvæma oft samfelldar og alvarlegar netárásir sem skaða danska hagsmuni“.

FE telur að áfram verði gerðar stöðugar árásir eða stundaðar njósnir af tölvuþrjótum í opinberri þjónustu einkum gegn utanríkisráðuneytinu og varnarmálaráðuneytinu auk þess sem danskar rannsóknastofnanir séu í mikilli hættu vegna netnjósna.

„Það má líkja því við stríð þegar ríki eða opinberir gerendur standa að baki árásum. Þetta er árás ríkisaðila gegn öðrum löndum þótt hún sé gerð í netheimum. Þar með neyðumst við til að líta á þetta sem stríð einnig til að beita réttum búnaði til að verja okkur,“ segir Trine Bramsen.

Með vísan til áhættumatsins segir hún að ógnin hafi aukist „umtalsvert“ og um sé að ræða sífellt fagmannlegri og háþróaðri árásir gegn dönskum stjórnvöldum, fyrirtækjum og borgurum.

„Það er alvarlegt að ríki skuli standa að baki mörgum þessara árása. Kæmi sprengjuvél og kastaði sprengjum á fyrirtæki eða brýr sem eru hluti af mikilvægum grunnvirkjum samfélagsins efaðist enginn um að gerð hefði verið árás. Munurinn er að þessar árásir eru gerðar í netheimum en þær geta einnig valdið tjóni og gert kerfi óstarfhæf,“ segir danski varnarmálaráðherrann.

Hvers vegna byrjar þú að nota orðið stríð um netárásir á Danmörku? spyr blaðamaður Jyllands-Posten.

„Hér er jú um árás að ræða. Gerð var netárás í Þýskalandi í september sem læsti kerfunum og leiddi til þess að kona dó af því að hún fékk ekki nauðsynlega aðhlynningu.“

Trine Bramsen viðurkennir að með því að nota orðið stríð sé kannski kveðið dálítið fast að orði en hún bendir á að tjónið af netárás geti orðið eins mikið og af sprengiárás og orðið samfélaginu dýrkeypt.

„Við neyðumst til að nota orðið stríð svo að allir skilji alvöruna og til að fyrirtæki og stjórnvöld neyðist til að grípa til varna gegn þessari ógn.“

Getur þú nefnt dæmi um að Danmörk hafi orðið fyrir árás sem líkja megi við stríð af hálfu erlendra ríkisaðila?

„Ég get ekki sagt hverjir hafi staðið að baki þeim árásum sem við höfum greint í Danmörku. Ég get hins vegar sagt að innan ESB höfum við gripið til netbannsaðgerða gegn Rússlandi, Kína og Norður-Kóreu.“

Af hálfu ESB var til dæmis nýlega gripið til refsiaðgerða gegn tveimur háttsettum rússneskum embættismönnum, þar á meðal yfirmanni njósnastofnunar rússneska hersins, vegna tölvuárásar 2015 gegn þýska sambandsþinginu. Refsingin felst meðal annars í því að fjármunir og aðrar eignir innan ESB eru frystar auk komubanns til ESB á viðkomandi einstaklinga. Rússar hafna öllum ásökunum í sinn garð vegna tölvuárásarinnar.

Sé litið fram hjá refsiaðgerðum, hvað annað eiga Danir að gera sér til varnar í þessu nýja stríði?

„Mestu skiptir er menn átti sig á að það sé háð og að daglega sjáist merki um árásir og tilraunir til árása á dönsk fyrirtæki, borgara og stjórnvöld,“ segir Trine Bramsen.

Dönsk yfirvöld reka netöryggismiðstöð, Center for Cybersikkerhed, undir leyniþjónustu hersins. Ákveðið er með samþykki allra stjórnmálaflokka að stórauka fjárveitingar til þessarar miðstöðvar.

Varnarmálaráðherrann leggur áherslu á átak til að mennta fólk til starfa í netöryggismiðstöðinni og leitað verði að fólki með sérstaka hæfni á þessu sviði til starfa þar.

Trine Bramsen boðar nýja netöryggisstefnu á næsta ári þar sem leitast verði við að auka öryggi á öllum stigum innan opinbera kerfisins:

„Í nýju stefnunni teygjum við netöryggi til nær allra ráðuneyta. Stafræna kerfið veitir ný tækifæri en skapar einnig hættu á árás og gerir okkur berskjaldaðri.“

Í áhættumati dönsku leyniþjónustunnar er lýst áhyggjum yfir því að tölvuþrjótar nýti sér COVID-19-ástandið til að þróa nýjar árásaraðferðir og tæki til þeirra. Þá sé unnt að ógna öryggi Danmerkur með innleiðingu á 5G-farkerfinu og eftirlitskerfum komi þessi búnaður frá ríkjum sem ekki eru bandalagsríki Dana. Þau gætu við ákveðnar aðstæður misnotað búnaðinn til njósna eða til að stöðva grunnkerfi í gegnum bakdyr í búnaðinum.

Trine Bramsen er með lagafrumvarp í smíðum sem meðal annars er ætlað að útiloka kínverska risafyrirtækið Huawei frá því að selja 5G-búnað til Danmerkur. Hert öryggisákvæði í lögunum eiga að tryggja að það séu aðeins birgjar í nánum bandalagslöndum Danmerkur sem hljóti viðurkenningu.

„Það er enginn vafi á því að við höfum verið allt of barnaleg allt of lengi gagnvart mikilvægum og lífsnauðsynlegum grunnvirkjum. Nýju lögunum er ætlað að vernda Danmörku enn frekar gegn árás,“ segir danski varnarmálaráðherrann.

Jens Ringsmose, prófessor í Syddansk Universitet, sem lengi hefur rannsakað dönsk öryggismál segir að til þessa hafi engin netárás á Danmörku verið þess eðlis að kalla megi hana stríð. Ráðherrann noti orðið til að skerpa umræðurnar.

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …