Home / Fréttir / Danir óttast efnhagssamdrátt i Þýskalandi

Danir óttast efnhagssamdrátt i Þýskalandi

ap17117353506162

Nýjar lykiltölur um hagvöxt í Þýskalandi varpa skugga á efnahagsþróunina í Evrópu og ekki síst í Danmörku segir á vefsíðu Jyllands-Posten þriðjudaginn 24. september.

Tölurnar eru sagðar endurspegla hægari vöxt í heimsbúskapnum, áhrif viðskiptastríðsins, þrengingar í bílaframleiðslu og brexit. Allt hafi þetta leitt til mesta samdráttar í efnahags- og atvinnulífi Þýskalands síðan í fjármálakreppunni árið 2008.

„Það eru auðvitað slæmar fréttir fyrir danskt efnahagslíf þegar samdráttur verður á stærsta útflutningsmarkaði okkar. Erfiðara verður fyrir danska útflytjendur að halda góðum takti áfram taki ekki að blása byrlegar í efnahagslífi stærsta viðskiptaaðila okkar á næstu mánuðum,“ segir  Anders Christian Overvad, hagfræðingur hjá Arbejdernes Landsbank.

Að sögn sérfræðinga Sydbank eykst þrýstingur á Seðlabanka evrunnar og Seðlabanka Þýskalands vegna þessa og krafa um að lækka vexti enn frekar á næstunni. Það geti einnig leitt til þess að vextir á ibúðarlánum í Danmörku lækki.

Sérfræðingar hjá BankInvest í Danmörku segja að þróunin kunni einnig að neyða þýsku ríkisstjórnina til að draga úr aðhaldi í ríkisfjármálum í þágu þýskra neytenda og þar með danskra útflytjenda.

Hagvísar frá Þýskalandi fóru undir 50 mánudaginn 23. september sem markar skilin milli vaxtar og samdráttar. Það hefur ekki gerst frá því í apríl 2013. Þá lækkaði útflutningsvísitala framleiðslugreina í 40,4 og er jafnlág og árið 2012 þegar skuldakreppan ríkti á evru-svæðinu. Vísitala framleiðslugreinanna í heild er sú lægsta frá árinu 2009 og er nú langlægst meðal stærstu hagkerfa evru-svæðisins.

Þriðjudaginn lækkaði þýska Ifo-vísitalan sem sýnir almennt viðhorf í þýsku atvinnulífi. Svartsýni einkennir mat stjórnenda fyrirtækja á framtíðinni og þeir halda að sér höndum í fjárfestingum. Óttast er að við þetta aukist samdrátturinn enn frekar.

Af hálfu Nordea og Dansk Erhverv er því spáð að í ár verði hagvöxtur í Þýskalandi innan við 1% og hefur hann ekki verið minni frá því á árunum 2012 og 2013, í skuldakreppunni.

Um 15% af heildarútflutningi Dana er til Þýskalands og Þjóðverjar eru jafnframt helstu viðskiptavinir flestra annarra Evrópuþjóða. Dansk Erhverv telur að allt að 100.000 manns hafa bein eða óbein tengsl við útflutning til Þýskalands.

„Frá dönskum sjónarhóli veldur sérstökum áhyggjum að efnahagsástandið í Þýskalandi heldur aðeins áfram að versna,“ segir Helge Pedersen, aðalhagfræðingur Nordea.

 

 

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …