Home / Fréttir / Danir gefa Úkraínumönnum 19 F16-orrustuþotur

Danir gefa Úkraínumönnum 19 F16-orrustuþotur

Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti og Mette Frederiksen forsætisráðherra í F16-þotu í Skrydstrup flugherstöðinni á Suður-Jótlandi 20. ágúst 2023.

Stjórnvöld Danmerkur og Hollands hafa fyrst orðið við óskum Úkraínustjórnar um að fá vestrænar orrustuþotur. Þetta kom fram sunnudaginn 20. ágúst á blaðamannafundi sem Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, hélt með Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseta í Eindhoven í Hollandi.

Frá Hollandi hélt Zelenskíj til Suður-Jótlands síðdegis sunnudaginn 2o. ágúst. Í flugherstöðinni í Skrydstrup þaðan sem danski flugherinn heldur úti F16-orrustuþotum hitti hann Mette Frederiksen forsætisráðherra, Lars Løkke Rasmussen utanríkisráðherra og Jakob Elleman-Jensen varnarmálaráðherra.  Stigu forsetinn og forsætisráðherrann í flugmannssæti í F16-þotu áður en þau gengu til lokaðs fundar.

Þá héldu Frederiksen og Zelenskíj blaðamannafund þar sem hún bar mikið lof á forsetann og lýsti honum sem mestu hetju samtímans. Danir stæðu einhuga að baki Úkraínumönnum í frelsisbaráttu þeirra og myndu gera þar til yfir lyki. Því til staðfestingar gæfu þeir Úkraínu 19 F16-orrustuþotur og yrðu fyrstu vélarnar afhentar um áramót.

Zelenskíj var greinilega djúpt snortinn yfir orðum forsætisráðherrans og flugvélagjöfinni sem myndi auka öryggi almennra borgara og hermanna í Úkraínu.

Þegar hann var spurður hvort Úkráínuher myndi nota dönsku þoturnar til árása á skotmörk í Rússlandi varð hann tvíræður á svip en sagði „Við ræddum það ekki, satt að segja.“ Hann lagði síðan áherslu á að mestu skipti fyrir Úkraínumenn að „verja okkur sjálfa“, konur, börn og hermenn.

Jakob Ellemann-Jensen, varnarmálaráðherra Dana, sagði eftir blaðamannafundinn að sama gilti um flugvélarnar og önnur vopn sem Úkraínumönnum væru gefin að þau skyldi nota til eigin varna en ekki gegn skotmörkum í Rússlandi.

Þá var Zelenskíj spurður um umræður sem spunnust vegna ummæla skrifstofustjóra Jens Stoltenbergs, framkvæmdastjóra NATO, um að Úkraínumenn neyddust kannski til að láta af hendi land í samningum um frið og aðild að NATO. Forsetinn svaraði kaldhæðnislega: „Við erum tilbúinir til að skipta á Belgorod [héraði í Rússlandi] gegn aðild að NATO.“

Zelenskíj og Olena eiginkona hans verða fram á mánudag í Danmörku.

Mark Rutte vildi ekki segja hve margar þoturnar yrðu en á samfélagsmiðlinum X (áður Twitter) sagði Zelenskíj að þær yrðu 42:

„Mark Rutte og ég komumst að samkomulagi um fjölda F16 sem verða afhentar Úkraínu þegar flugmenn okkar og flugvirkjar hafa lokið þjálfun sinni. 42 vélar. Og það er bara byrjunin,“ skrifar Zelenskíj og síðan: „Thank you Netherlands.“

Á vefsíðu Berlngske sunnudaginn 20. ágúst birtist þess mynd danska flughersins af F16-þotu á flugi yfir Íslandi.

Laugardaginn 19. ágúst var Zelenskíj í Svíþjóð og gerði samning um smíði léttra sænskra skriðdreka í Úkraínu.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …