Home / Fréttir / Danir og Grænlendingar óttast aukin umsvif rússneskra herþotna á norðaustur hluta Grænlands

Danir og Grænlendingar óttast aukin umsvif rússneskra herþotna á norðaustur hluta Grænlands

Frá bandarísku Thule-herstöðinni.
Frá bandarísku Thule-herstöðinni.

Claus Hjort Frederiksen, varnarmálaráðherra Danmerkur, áréttar vilja Dana til að viðhalda norðurslóðum sem lágspennusvæði en segir jafnframt að ef til vill neyðist Danir til að halda úti orrustuþotum á Grænlandi ef Rússar rjúfi grænlenska lofthelgi með hervélum sínum,

Danska herstjórnin segir að ekki líði á löngu þar til rússneskar hervélar fljúgi inn yfir hluta Grænlands án þess að nokkur hafi auga með þeim. Varnarmálaráðherra Dana segir að eins og málum sé nú háttað geti dönsk yfirvöld ekki gert neitt til að stöðva vélarnar.

„Við getum ekki þolað að rofin sé lofthelgi dansks yfirráðasvæðis. Við verðum að árétta fullveldi okkar, alveg eins og gert er við Danmörku og á Eystrasalti þegar Rússar sækja þangað. Við verðum að grípa til sömu ráða á Grænlandi,“ sagði Claus Hjort Frederiksen við Berlingske Tidende mánudaginn 20. maí.

Danska herstjórnin bendir á að hervæðing Rússa við Norður-Íshaf felist meðal annars í veru eldsneytisvéla og orrustuþotna í Nagurskoje-flugherstöðinni á Alexander-landi í um 1.000 km fjarlægð frá strönd Grænlands. Frá flugherstöðinni geti rússnesku hervélarnar náð til norðaustur hluta Grænlands og Thule-herstöðvarinnar.

Ætli Danir að halda úti orrustuvélum á Grænlandi jafngildir það gjörbyltingu á varnarviðbúnaði landsins. Til þess þyrfti meðal annars að reisa aðgerðastöð og endurnýja allan fjarskiptabúnað.

Ráðherrann taldi Grænland illa varið gegn netárásum. Þar ættu Rússar einnig hlut að máli. Vill hann að leyniþjónusta danska hersins hefji starfsemi á Grænlandi.

Í Berlingske Tidende þriðjudaginn 21. maí segir að á Grænlandi fylgist menn áhyggjufullir með aukinni hervæðingu á norðurslóðum. Umræður um þróunina kunni að hafa áhrif á hvernig atkvæði falli í kosningunum til danska þingsins 5. júní 2019. Grænlendingar eiga tvo fulltrúa á þinginu í Kaupmannahöfn og er Aaja Chemnitz Larsen frá flokknum Inuit Ataqatigiit (IA) annar þeirra.

„Það ríkir enginn vafi að um aukna hervæðingu Rússa er að ræða. Og hún færist stöðugt nær Grænlandi,“ segir hún. „Það vekur áhyggjur á Grænlandi að áður en langt um líður geti rússneskar flugvélar náð til Grænlands og bandarísku Thule-stöðvarinnar.“

Hún væntir þess að eftir kosningarnar 5. júní fá Grænlendingar aukin áhrif á dönsk varnar- og utanríkismál í ljósi þess að hernaðarleg þýðing Grænlands eykst.

„Mér virðist einsýmnt að við fáum fast sæti í varnarmálanefndinni. Þegar litið er til alþjóðlegs hlutverks Grænlands skipta varnarmálin svo miklu,“ segir Aaja Chemnitz Larsen. Hún situr nú í varnarmálanefnd þingsins en Grænlendingar eiga ekki fast sæti þar. Þá er hún varamaður í utanríkismálanefnd þingsins.

Aaja Chemnitz Larsen er sammála Claus Hjort Frederiksen um að eins og málum sé háttað núna sé ekki knýjandi þörf fyrir danskar orrustuþotur á Grænlandi. Hún hvetur hins vegar til þess að dönsk stjórnvöld hefji undirbúning að auknum hernaðarlegum umsvifum á Grænlandi. Í fyrstu atrennu sé ekki þörf fyrir orrustuvélar, á hinn bóginn ætti að auka eftirlitið til að átta sig á því hvað Rússar hafi fyrir stafni. Fjölga þurfi í danska herliðinu á Grænlandi meðal annars með því að skrá fleiri Grænlendinga til herþjónustu. Það styrki liðið að í því séu heimamenn, gjörkunnugir öllum aðstæðum.

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …