Home / Fréttir / Danir kynna tvíhliða varnarsamning við Bandaríkjamenn

Danir kynna tvíhliða varnarsamning við Bandaríkjamenn

Mette Frederiksen forsætisráðherra og Troels Lund Poulsen varnarmálaráðherra kynna varnarsamninginn 19. desember 2023.

Danir hafa gert varnarsamning við Bandaríkjamenn eftir tæplega tveggja ára viðræður um efni hans. Mette Frederiksen forsætisráðherra og Troels Lund Poulsen varnarmálaráðherra kynntu samninginn á blaðamannafundi að morgni þriðjudagsins 19. desember.

Hafa nú öll norrænu ríkin fimm gert tvíhliða varnarsamninga við Bandaríkjastjórn. Íslendingar árið 1951, Norðmenn í júní 2022 en  Svíar, Finnar og Danir í desember 2023.

„Bandarískir hermenn geta haft fasta viðveru á dönsku landi,“ sagði Mette Frederiksen í upphafi blaðamannafundarins.

Bandaríkjaher fær afnot af þremur dönskum flugherstöðvum í Karup, Skrydstrup og Álaborg. Bandaríkjaher getur einnig geymt hergögn í stöðvunum.

Bandaríkjaher hefur aðgang að fimm herstöðvum í Noregi, 17 í Svíþjóð og 15 í Finnlandi.

Enn er óákveðið hve margir bandarískir hermenn verða í Danmörku. Það kann að verða breytilegt eftir aðstæðum.

Það verður bannað að hafa kjarnavopn í Danmörku. Troels Lund Poulsen segir að afstaða danskra stjórnvalda breytist ekki að því leyti.

Í samningnum við Norðmenn er tekið fram að Bandaríkjamenn megi ekki stunda kjarnavopnaæfingar á norsku landi og þar megi þau ekki vera.

Ekkert slíkt ákvæði er hins vegar í samningi Svía við Bandaríkjastjórn og að því virðist ekki heldur í samningnum við Finna.

Þá eru í danska samningnum eins og öllum hinum samningunum ákvæði um réttarstöðu bandarískra hermanna.

Samningurinn nær hvorki til Færeyja né Grænlands.

Samningurinn gengur í gildi þegar danska þingið hefur samþykkt lög um hann. Talið er að meðferð þingsins taki um eitt ár. Eftir að samningurinn tekur gildi verður honum ekki sagt upp í 10 ár. Eftir það getur hvor aðili um sig sagt samningnum upp með 12 mánaða fyrirvara.

Auk norrænu ríkjanna hafa Eystrasaltslöndin, Pólland, Tékkland og Ungverjaland svipaða samninga við Bandaríkin.

Mette Frederiksen skýrði frá því í febrúar 2022 að viðræður um varnarsamning hefðu hafist við Bandaríkjastjórn og hann kynni að leiða til viðveru bandarískra hermanna í Danmörku.

 

Heimild: Berlingske

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …