
Danska ríkisstjórnin hefur hafið viðræður við bandarísk stjórnvöld um varnarsamning sem kann að leiða til þess að bandarískir hermenn og hergögn verði í stöðvum í Danmörku.
Þetta kom fram á blaðamannafundi sem jafnaðarmennirnir Mette Frederiksen forsætisráðherra, Morten Bødskov varnarmálaráðherra og Jeppe Kofod utanríkisráðherra héldu í Kaupmannahöfn fimmtudaginn 10. febrúar.
Forsætisráðherrann sagði enn of snemmt að segja hver niðurstaðan yrði en hugsanlega yrðu bandarískir hermenn með viðveru í Danmörku. Þar með yrði horfið frá stefnu sem fylgt hefði verið í marga áratugi um að erlendur her hefði ekki aðsetur á dönsku landi.
Hún sagði að nú sæju menn þetta að sjálfsögðu í ljósi umsáturs Rússa um Úkraínu en þetta væri liður í stærri mynd enda stæðu Danir frammi fyrir sífellt nýjum og æ flóknari ógnum eins og hryðjuverkum og tölvuárásum. Um þessar mundir minntu valdfrekir stjórnendur Rússlands einnig sérstaklega á sig.
Á blaðamannafundinum var sagt að nú væri liðið rúmlega eitt ár frá því að Bandaríkjastjórn sneri sér til danskra stjórnvalda vegna þessa máls.
Morten Bødskov varnarmálaráðherra sagði að ekki væri til umræðu að opna nýjar herstöðvar í Danmörku. Á hinn bóginn yrðu samskipti danskra og bandarískra hermanna nánari. Sameiginleg þjálfun yrði meiri, æfingum fjölgaði og flotasamstarf ykist. Ekki kæmi til álita að leyfa bandarísk kjarnorkuvopn í Danmörku.
Peter Viggo Jakosen, lektor við Institut for Strategi og Krigsstudier í Forsvarsakademiet, Varnarmálaháskólanum, telur að með varnarsamningi við Bandaríkjamenn verði sameiginlegur fælingarmáttur heraflans gegn Rússum öflugri.
Hann segir réttmætt að velta fyrir sér hvort í slíkum samningi við Bandaríkjamenn afsali Danir sér fullveldi gagnvart þeim. Á blaðamannafundinum hefðu nokkrir blaðamenn bent á að t.d. Norðmenn vissu ekki hvaða vopn Bandaríkjamenn geymdu í Noregi. Þá komi fullveldið einnig til álita vegna lögbrota sem bandarískir hermenn fremdu hugsanlega á danskri jörð. Þá kynni Bandaríkjastjórn að hafna því að þeir yrðu ekki sóttir til saka innan danska réttarkerfisins, hún vildi ljúka málinu innan eigin kerfis.
Peter Viggo Jakobsen segir að ef til vill megi túlka samningaviðræðurnar á þann veg að hernaðarlega standi Danir verr að vígi nú en í kalda stríðinu. Þá hafi Danir sett kvaðir á sjálfa sig sem verði úr sögunni með samningnum. Það voru til dæmis skorður gegn því að her bandamanna Dana dveldist í Danmörku á friðartímum, kjarnorkuvopnum var hafnað á danskri jörð, herir bandamanna máttu ekki fara til Borgundarhólms, Danir tækju ekki þátt í heræfingum fyrir austan Borgundarhólm o.s.frv. Nú hafi Danir lagað sig meira en áður að bandarískum kröfum. Hann telur að í kalda stríðinu hafi Danir ekki verið eins hræddir við Sovétmenn eins og nú við Rússa.
Peter Viggo Jakobsen telur víst að Rússar mótmæli því að Danir semji við Bandaríkjamenn. Samningurinn minnki þó líkur á skyndiárás Rússa á Dani. Hættan á stórstyrjöld minnki. Afstaða Rússa ráðist af því hvaða bandarísk vopn verði flutt til Danmerkur.
Danska jafnaðarmannastjórnin tryggir sér meirihluta á þingi með stuðningi Sósíalíska þjóðarflokksins (SF) og Einingarlistans (Enhedslisten). Flokkarnir skipa sér báðir vinstra megin við jafnaðarmenn og báðir eru gagnrýnir á varnarsamning við Bandaríkjamenn.
Karsten Hønge, talsmaður SF í utanríkismálum, segir væntanlegan samning í andstöðu við danskt fullveldi, skref í vitlausa átt. Hann lýsir einkum andstöðu við að Bandaríkjaher fái sérstakar stöðvar í Danmörku,
Eva Flyvholm frá Einingarlistanum gagnrýnir einnig aðförina að dönsku fullveldi. Það sé einkennilegt og óeðlilegt ef Bandaríkjamenn ráði sér sjálfir í Danmörku
Martin Lidegaard hjá De Radikale, er opinn fyrir viðræðum við Bandaríkjastjórn en hafa verði samráð við danska þingið í hvert skipti sem bandarískir hermenn komi til Danmerkur.
Fulltrúar borgaraflokkanna, Venstre og Íhaldsflokksins, styðja áform ríkisstjórnarinnar. Það sé mikilvægt að efla Atlantshafssamstarfið.