Home / Fréttir / Danir hafa fengið nóg af „skapandi lögskýringum“ Mannréttindadómstóls Evrópu

Danir hafa fengið nóg af „skapandi lögskýringum“ Mannréttindadómstóls Evrópu

Úr Mannréttindadómstóli Evrópu.
Úr Mannréttindadómstóli Evrópu.

Þeim fjölgar í Danmörku sem vilja losa sig undan mannréttindasáttmála Evrópu. Þetta er niðurstaða nýlegrar skoðanakönnunar meðal Dana. Lagaprófessor við Kaupmannahafnarháskóla lítur á niðurstöðuna sem andstöðu við það sem kallað er „skapandi lögskýring“ Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg.

Alræmdur foringi glæpahópsins Loyal to Familia, Shuaib Khan, hefur mörg mjög alvarleg afbrot á samviskunni. Hann hefur meðal annars átt þátt í að murka lífið úr manni í Álaborg. Að auki hefur hann verið dæmdur fyrir önnur afbrot og ofbeldisverknaði.

Honum hefur ekki verið vísað frá Danmörku þótt hann sé pakistanskur ríkisborgari. Hann nýtur verndar Mannréttindadómstóls Evrópu.

Dómstóllinn túlkar mannréttindasáttmála Evrópu á þann veg að ekki sé unnt að brottvísa glæpamönnum á borð við Shuaib Khan.

Dómstóllinn telur að maður eins og hann njóti verndar sáttmálans með vísan til ákvæða hans um réttinn til að búa með fjölskyldu sinni og tengsla við landið þar sem hann hefur brotið af sér.

Shuaib Khan fæddist og ólst upp í Danmörku og þar býr öll fjölskylda hans og þess vegna er það álit dómstólsins að það sé andstætt mannréttindasáttmálanum að brottvísa honum.

Þetta felur í sér að krafa Dana um vernd gegn mönnum á borð við Shuaib Khan svo að ekki sé minnst á sígauna-glæpamanninn Gimi Levakovic má sín einskis andspænis mannréttindum erlendra glæpamanna.

Afstaða mannréttindadómstólsins hefur leitt til þess að þeim fjölgar í Danmörku sem vilja breyta mannréttindasáttmála Evrópu á þann veg að auðveldara verði að brottvísa útlendingum. Sé það ekki unnt beri að huga að því að segja skilið við mannréttindasáttmálann.

Þetta segir tæpur helmingur Dana (48%) í könnun á vegum Norstat sem gerð var fyrir vefsíðuna altinget.dk og sagt var frá þriðjudaginn 4. september.

Aðeins þriðjungur (34%) vill að Danmörk sé aðili að mannréttindasáttmálanum hvað sem tautar og raular.

Þegar skoðuð er afstaða aðspurðra eftir stjórnmálaflokkum eru andstæðingar aðildar að óbreyttum mannréttindasáttmála flestir í hópi kjósenda Danska þjóðarflokksins. Sama afstaða á einnig mikið fylgi meðal kjósenda annarra flokka. Þannig segja 57% kjósenda Venstre, flokks danska forsætisráðherrans, að þeir vilji að aðildin að mannréttindasáttmálanum sé endurskoðuð sé ekki unnt að breyta ákvæðum hans og auðvelda brottvísun erlendra glæpamanna. Skoðunin á meiri hljómgrunn meðal danskra jafnaðarmanna en áður var ætlað. Fylgi við hana minnkar eftir því sem lengra er haldið til vinstri.

Á vefsíðunni altinget.dk er rætt við Mads Bryde Andersen, lagaprófessor við Kaupmannahafnarháskóla, sem skrifaði grein í tímaritið Juristen og gagnrýndi „skapandi túlkun“ dómaranna í Strassborg. Hann segist undrandi á niðurstöðunni í könnun Norstat og bætir við:

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé ótvíræðan stuðning við að sáttmálinn verði endurskoðaður. Nú er þetta mál hins vegar komið á dagskrá stjórnmálamanna í anda góðra og opinna danskra hefða um að menn verði einnig að taka viðkvæm samfélagsmál til umræðu. Það er ekki unnt að stofna til slíkra umræðna í öllum löndum.“

Danir taka við formennsku í ráðherraráði Evrópuráðsins í nóvember 2017 og telur Bryde Andersen prófessor að stuðli þeir þar að umræðum um skapandi lögskýringar mannréttindadómstólsins verði að skoða allar hliðar málsins.

„Ég mæli eindregið með því við stjórnmálamennina að þeir kynni þann kost að aðildarlöndin geti sagt sig frá mannréttindasáttmálanum, sé ekki búið þannig um hnúta að aðildarríkin geti gripið til ráðstafana gagnvart of víðtækum skapandi lögskýringum. Það er skynsamlegt að hafa þennan kost uppi í erminni í samningaviðræðum,“ segir Mads Bryde Andersen sem leggur áherslu á að uppsögn sáttmálans jafngildi hvorki úrsögn Danmerkur úr ESB né Evrópuráðinu.

Prófessorinn segir að danskir stjórnmálamenn hafi ekki áður kynnt gagnrýn viðhorf sín til dómstólsins á opinberum vettvangi. Nú sé komið að því að þeir geri það og til þess hafi þeir fullan rétt. Það gildi engar fyrningarreglur þegar rætt sé um mál sem þetta.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …