Home / Fréttir / Danir hætta að líta norrænt varnarsamstarf hornauga

Danir hætta að líta norrænt varnarsamstarf hornauga

 

 Bandarísk sprengjuvél af B-52-gerð er í forystu oddaflugs með orrustuþotum frá Svíþjóð, Póllandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum. Vélarnar eru á eftirlitsflugi yfir Eystrasalti. Myndin er frá bandaríska flughernum.

Bandarísk sprengjuvél af B-52-gerð er í forystu oddaflugs með orrustuþotum frá Svíþjóð, Póllandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum. Vélarnar eru á eftirlitsflugi yfir Eystrasalti. Myndin er frá bandaríska flughernum.

 

 

Í Jyllands Posten segir miðvikudaginn 1. mars að vegna ágengni Rússa á Eystrasalti og vaxandi þrýstings um aukin útgjöld til varnarmála frá Bandaríkjastjórn kunni Danir að neyðast til að efla hernaðarsamvinnu sína við Norðmenn, Svía og Finna. Þetta sé mat margra danskra og norskra herfræðinga.

Vitnað er í Haakon Lunde Saxi frá Institut fra Forsvarsstudier, Varnarrannsóknarstofnun, Noregs sem segir að Danir hafi ekki verið sérstaklega áhugasamir um norræna varnarsamstarfið þótt það hafi mælst vel fyrir hjá stjórnvöldum annars staðar á Norðurlöndunum.

Steen Kjærgaard við Dansk Institut for Internationale Studier (Diis), Dönsku utanríkismálastofnunina, segir að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi skapað óvissu um áhuga Bandaríkjamanna á öryggi Norðurlanda og þess vegna verði Danir að huga að því að styrkja NATO-aðild sína með því að verða virkari í norræna varnarmálasamstarfinu, NORDEFCO.

Kristian Søby Kristensen frá Center for Militære Studier, herfræðistofnun Kaupmannahafnarháskóla, bendir á að þjóðir verði sjálfar að ábyrgjast öryggi í eigin nágrenni.

„Almennt séð má segja að afstaða Dana til norræna varnarsamstarfsins hafi verið að gera eins lítið og þeir hafa komist upp með án þess að vekja reiði hjá norrænum vinum okkar,“ segir Søby Kristensen.

Hans Mouritzen hjá Diis er einnig þeirrar skoðunar að Danir verði að huga að málum eftir nýjum leiðum og beina athygli meira að „norrænu varnarbandalagi“ eftir að hafa árum saman lagt áherslu á náið samstarf við Bandaríkjamenn, kjarnaþjóð í NATO.

Samstarf Norðurlandanna í varnarmálum verður flóknara en ella hefði verið vegna þess að hvorki Finnar né Svíar eru í NATO segir Peter Viggo Jakobsen, lektor við Forsvarsakademiet, Varnarmálaháskólann, í Danmörku. Hann telur að erfitt sé að sjá tilganginn með norrænu samstarfi á þessu sviði séu ríki eins og Þýskaland og Bretland ekki með í hópnum.

„Danir leggja ekki sérstaklega mikla áherslu á norræna þáttinn og það væri í raun vitleysa að gera það. Eystrasaltið skiptir höfuðmáli fyrir okkur og að gera samstarfssamninga við Þjóðverja og Pólverja,“ segir hann og bendir á að Danir hafi auk þess tekið að sér leggja mannafla til herafla NATO í Eystrasaltslöndunum.“

Claus Hjort Frederiksen, varnarmálaráðherra Dana, er þeirrar skoðunar að styrkja beri varnarsamstarf Norðurlanda vegna þróunarinnar á Eystrasalti og á norðurslóðum:

„Vegna aukinnar athygli sem beinist að okkar svæði á Eystrasalti eru góð rök fyrir að við eigum einnig samstarf við Norðurlöndin. Þetta ber að gera á þeim sviðum þar sem það kann að auka áhrifamátt varna Norðurlanda.

NORDFECO er samstarf sem við eigum að leggja ríka áherslu á að efla.

Ágengnin sem Rússar sýna meðal annars með því að efla her sinn mikið þýðir að við verðum að endurmeta áhersluna sem við höfum undanfarin ár lagt á aðgerðir gegn hryðjuverkaógninni og á að taka að okkur verkefni fjarri ströndum Danmerkur.“

Varnarmálaráðherrann bendir auk þess á að Rússar hafi sett upp eldflaugar sem bæði megi skjóta á Stokkhólm og Kaupmannahöfn.

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …