Home / Fréttir / Danir hækka viðbúnaðarstig hersins vegna umsátursins um Úkraínu

Danir hækka viðbúnaðarstig hersins vegna umsátursins um Úkraínu

Herdeild er stefnt saman í Slagelsi til að henni megi beita með skömmum fyrirvara.

Danski herinn tilkynnti þriðjudaginn 8. febrúar að hann yki nú viðbúnað sinn á sjó, landi og í lofti til að bregðast við umsátri og framgöngu Rússa gegn Úkraínu.

Danskir herfræðingar telja þetta til marks um að staðan sé mjög alvarleg. Í samtali við Ritzau-fréttastofuna segir Mikkel Vedby Rasmussen, prófessor við Institut for Statskundskab í Københavns Universitet: „Ég minnist þess ekki að eining í danska hernum hafi verið virkjuð á viðbúnaðarstig síðan kalda stríðinu lauk.“

Þá er rætt við sjálfstætt starfandi herfræðing, Hans Peter Michaelsen, sem einnig hefur reynslu sem hermaður. Hann segir:

„Ég gekk sjálfur í herinn í nóvember 1978 og gegndi þar þjónustu á níunda áratugnum og í kalda stríðinu, ég minnist þess ekki að á þeim tíma hafi viðbúnaðarstig verið hækkað vegna eins atviks. Að sjálfsögðu var viðbúnaðarstigið almennt hærra þá og við æfðum meira en ástandið var ekki þannig að efnt yrði til sérstakra æfinga. Það sem gerist núna er aðeins til marks um að ástandið sé verulega alvarlegt, og við vitum einfaldlega ekki hvert stefnir.“

Hann telur að hverfa verði allt aftur til Kúbu-deilunnar til að benda á stöðu sem jafnist á við hættuástandið sem skapast nú vegna þess að meira en 100.000 rússneskir hermenn sitja um Úkraínu við landamærin.

Viðbrögð danska hersins eru þríþætt: Sjóherinn býr freigátu til gæslu við strendur Danmerkur; tvær F-16-orrustuþotur verða sendar til Borgundarhólms og landherinn kallar saman 700-800 manna herdeild í Slagelse svo að á innan við viku sé unnt að senda hana á vettvang undir fána NATO.

Aðgerðin snýst þannig bæði um varnir Danmerkur og getu Dana til að aðstoða bandamenn sína.

Hans Peter Michaelsen segir að allt miði þetta að því að gera stjórnmálamönnum kleift að bregðast við breyttum aðstæðum með skömmum fyrirvara.

Áður en tilkynning danska hersins barst fjölmiðlum birti Mette Frederiksen forsætisráðherra mynd af sér með alvörusvip í ráðherrabílnum þar sem hún sagðist hafa verið að ljúka símtali við Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO.

Danir halda nú úti fjórum F-16-þotum í Litháen til eftirlitsflugs yfir Eystrasaltslöndunum þremur auk þess sem 200 danskir hermenn eru í Eistlandi.

Hans Peter Michaelsen bendir á að í fyrra hafi tvær F-16-þotur verið sendar til Borgundarhólms vegna þess hve hart Rússar brugðust við NATO-æfingu á Eystrasalti og rufu oft danska lofthelgi. Hann telur líklegast að landherinn sé virkjaður eftir samtal Frederiksen og Stoltenbergs vegna þess að NATO hafi ákveðið að hækka viðbúnaðarstig sitt almennt.

Mikkel Vedby Rasmussen er sammála þessu því að nú skipti mestu fyrir NATO að þrýsta sem mest á Rússa þegar líklegt sé að þeir séu að breyta um stefnu. NATO verði að sýna að ekki sé unnt að leysa málið nema með samningum. Hann lýsir stöðunni sem „alvarlegu hættuástandi“.

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …