Home / Fréttir / Danir búa sig undir val á loftvarnaflaugum

Danir búa sig undir val á loftvarnaflaugum


Myndin er tekin við flugvöllinn í Vilnius í Litháen sumarið 2023 og sýnir Patriot-loftvarnakerfi handan við Wiz Air flugvélina.

Dönsk stjórnvöld ætla að verja 19 milljörðum danskra króna á næstu árum til að efla loftvarnir landsins með flugskeytum. Er líklegt að um val á varnarkerfi verði tekist á stjórnmálalegum og hernaðarlegum vettvangi. Ætlunin er að kaupa eitt langdrægt og tvö skammdræg loftvarnakerfi á næstu sjö árum.

Annars vegar er til skoðunar bandarískt kerfi sem dugar til að sinna verkefninu en er einnig dýrt og mannaflafrekt og hins vegar er athygli beint að ódýrara kerfi frá Ísrael.

Fyrir liggur gott tilboð á ísraelska kerfinu sem heitir á ensku David‘s Sling – slöngva Davíðs – og er hluti af ísraelska loftvarnakerfinu sem þekkt er undir enska heitinu Iron Dome – járnhvolfþakið.

Í danska blaðinu Berlingske er rætt við Rasmuss Ross, herfræðing hjá Center for Luft- og Rumoperationer í Forsvarsakademiet, miðstöð loft- og geimaðgerða í danska varnarmálaháskólanum. Hann segir að með tilliti til verðs og árangurs myndi hann kaupa David´s Sling. Peningarnir sem hann fengi til ráðstöfunar dygðu til að kaupa nokkur slík kerfi.

Það ræðst meðal annars af því að flugskeytin í ísraelska kerfinu eru hlutfallslega ódýr og þau skipta miklu í heildarverðinu. Þá er David‘s Sling langdrægt og það má hlaða mörgum flaugum í skotstöðu í kerfinu.

Töluverð reynsla hefur fengist af bandaríska Patriot-kerfinu við erfiðar aðstæður í Úkraínustríðinu gegn Rússum.  Rasmus Ross segir reynsluna af Patriot vissulega góða en meira fáist fyrir fé með því að kaupa David‘s Sling.

Ross hefur aðeins verið beðinn um hernaðarlegt mat. Hann segir að önnur sjónarmið kunni einnig að vega þungt þegar lagt sé mat á heildarhagsmuni Dana.

Átökin á Gaza koma nú til álita þegar danskir þingmenn leggja mat á vopnakaup. Þingmenn Sósíalíska þjóðarflokksins (SF) og Radíkalar hafa mikla fyrirvara á að flutt sé inn meira af hergögnum frá Ísrael.

Troels Lund Poulsen varnarmálaráðherra segist líta jákvæðum augum til allra ríkja sem geti selt þann búnað sem um sé að ræða, þar á meðal til Ísraels.

Jacob Barfoed offursti býr að reynslu sem flugmaður F-16 þotu. Hann stjórnar liðsflutningadeild danska hersins og hefur oft lýst gagnrýnu viðhorfi í umræðum um loftvarnir Dana.

Í Berlingske bendir hann á að langdrægar loftvarnir eigi að nýtast gegn kafbátum, rússneskum herskipum og skotpöllum á landi, t. d. í Kaliningrad við Eystrasalt.

Til árása á Úkraínu sendi Rússar venjulega 20-25 flugskeyti af stað þegar þeir ætli sér að hitta mikilvægt skotmark. Danir þurfi að búa sig undir eitthvað svipað í hvert sinn. Venjulega séu ein eða tvær gagnflaugar sendar gegn hverri árásarflaug.

Af þessum sökum verði Danir að ráða yfir miklum birgðum af dýrum flaugum án tillits til þess hvaða kerfi þeir kaupi. Þá þurfi flaugarnar að vera af ólíkum gerðum því að sama gagnflaug sé ekki notuð gegn stýriflaug sem laumast nærri yfirborði jarðar og eldflaug sem kemur úr háloftunum á fimm földum hljóðhraða.

Í þessu ljósi hafi David‘s Sling augljóst forskot. Reynslan frá Úkraínu sýni að það dugi ekki að ráða yfir besta kerfinu en skorta skotfærin.

Jacob Barfoed nefnir einnig ísraelska loftvarnakerfið Barak í stað David‘s Sling.

Hann segir að þegar 19 milljarðar króna séu til ráðstöfunar megi velta fyrir sér hvort það dugi til að kaupa bandaríska Patriot-kerfið. Hann bendir hins vegar á að það sé mikils virði að reynsla hafi fengist á Patriot-kerfið í stríðinu við Rússa í Úkraínu. Hinu megi svo velta fyrir sér hve oft flaugum kerfisins hafi verið skotið þar.

Til þessa eru Finnar eina þjóðin sem keypt hefur David‘s Sling. Barak hefur verið selt til Indlands, Azerbajdsjan og Kólumbíu.  Svíar og Pólverjar hafa á hinn bóginn valið Patriot.

 

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …