
Innan stóru dönsku stjórnmálaflokkanna Jafnaðarmannaflokksins og Venstre-flokksins vilja menn herða baráttuna gegn hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams.
Danir sendu fyrr á árinu F-16 orrustuþotur til þátttöku í aðgerðum gegn Ríki íslams (RÍ) í Írak. Stjórnvöld veittu ekki heimild til að þeim yrði beitt gegn skotmörkum í Sýrlandi. Í október var vélunum snúið að nýju til Danmerkur.
Í Jyllands-Posten þriðjudaginn 17. nóvember segir Nicolai Wammen, þingmaður jafnaðarmanna, stærsta danska stjórnarandstöðuflokksins, að þegar vélararnar verði sendar að nýju til Mið-Austurlanda eigi að beita þeim til árása bæði í Írak og Sýrlandi. Þá vill hann að Danir haldi áfram að sinna ratsjáreftirliti á átakasvæðunum en það nær einnig til svæða í Sýrlandi.
Michael Aastrup Jensen, talsmaður Venstre, stærsta stjórnarflokksins, í utanríkismálum segir í sama blaði, að senda eigi dönsku F-16 þoturnar til árása á skotmörk í Sýrlandi. Ráðast eigi gegn RÍ hvar sem er, hryðjuverkamenn eigi hvergi að hafa skjól og þar sem þeir viðurkenni ekki landamæri Íraks og Sýrlands sé ástæðulaust fyrir Dani að virða þau.
Danir héldu úti 140 mönnum og sjö dönskum F-16 orrustuþotum í flugstöð í Kúvæt frá október 2014 til október 2015. Dönsku vélarnar flugu 547 ferðir og úr þeim var kastað 503 sprengjum á skotmörk í Írak. Á þennan hátt tóku Danir þátt í aðgerðinni Operation Inherent Resolve gegn RÍ undir forystu Bandaríkjamanna.
Ástæðuna fyrir því að dönsku vélunum var aðeins beitt gegn skotmörkum í Írak má rekja til þess að ríkisstjórn Íraks hafði beðið um aðstoð en ekki hin sýrlenska.
Ætlunin er að senda þoturnar að nýju til Kúvæt á næsta ári og danskir stjórnmálamenn segja að árásirnar í París hinn 13. nóvember sýni að réttmætt sé að ráðast einnig á RÍ í Sýrlandi.
Ríkisstjórnin hefur ekki tekið ákvörðun um stefnubreytinguna.