Home / Fréttir / Danir búa sig undir afleiðingar hertrar landamæravörslu Svía

Danir búa sig undir afleiðingar hertrar landamæravörslu Svía

Silvy Listhaug, nýr útlendingamálaráðherra Noregs.
Silvy Listhaug, nýr útlendingamálaráðherra Noregs.

Hvarvetna á Norðurlöndunum utan Íslands hefur gæsla á landamærum verið endurskipulögð með það fyrir augum að beina hælisleitendum sem ekki sýna fram á augljósan rétt til að mál þeirra séu skoðuð sérstaklega frá löndunum. Þetta eykur álag á lögreglu sem annast gæslu landamæra.

Sylvi Listhaug sem fyrir tæpum tveimur vikum skipuð útlendingamálaráðherra Noregs kynnti þriðjudaginn 29. desember frumvarp í 18 liðum með 40 breytingum á útlendingalögunum í því skyni að í Noregi yrðu ströngustu útlendingalög í Evrópu.

Mánudaginn 4. janúar munu Svíar innleiða það sem kallað er transportansvar á dönsku og þýða mætti sem farþegaábyrgð á íslensku. Í því felst að allir sem ferðast til Svíþjóðar verða að framvísa persónuskilríkjum.

Verður skilríkjanna krafist þegar haldið er til Svíþjóðar frá lestarstöðinni á Kaupmannahafnarflugvelli. Skilríkjakrafan gildir fyrst um sinn í einn mánuð og ber að framvísa vegabréfi, ökuskírteini eða öðru lögmætu skilríki með mynd. Dönsku járnbrautirnar (DSB) bera ábyrgð á skilríki séu könnuð og annast starfsmenn Securitas athugun þeirra fyrir DSB. Lestir fara frá stöðinni á Kaupmannahafnarflugvelli á 20 mínútna fresti til Svíþjóðar og ber öllum sem þangað ætla að skipta um lest í stöðinni. Þegar haldið er með lest frá Svíþjóð til Kaupmannahafnarflugvallar eru persónuskilríki ekki athuguð,

Inger Støjberg, útlendingamálaráðherra Danmerkur, sagði þriðjudaginn 29. desember að stjórnvöld mundu fylgjast náið með framvindu mála. Hugsanlega yrði gripið til eftirlits við landamæri Þýskalands til að hefta straum fólks þaðan til Danmerkur. Ákvörðun um þetta herta eftirlit hefur ekki verið tekin en bent er á að áætlanir um það hafi verið gerðar.

Í Danmörku ber Rigspolitiet – ríkislögreglan – ábyrgð á framkvæmd landamæraeftirlitsins en þar á bæ hafa menn til þessa ekkert sagt opinberlega um áform sín.

Í Ekstra Bladet hefur birst talan 2.300 þegar rætt er um fjölda lögreglumanna sem þyrfti til landamæravörslunnar. Þá segir blaðið að lögreglan búi sig undir að opna þrjár móttökustöðvar fyrir hælisleitendur í Søgårdlejren á Suður-Jótlandi, á Suður-Sjálandi við herskála í Vordingborg Kaserne og í Valby í Kaupmannahöfn. Samtals geti 3.000 til 4.000 manns verið í þessum stöðvum sem verði lokaðar og undir eftirliti.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …