Home / Fréttir / Danir bregðast við stríðshættu með því að efla eigin varnir

Danir bregðast við stríðshættu með því að efla eigin varnir

Mikkel Vedby Rasmussen, prófessor í alþjóðastjórnmálum.

 

Danska ríkisstjórnin boðaði miðvikudaginn 13. mars að herskylda í Danmörku yrði lengd úr fjórum mánuðum í 11 mánuði og hún næði bæði til karla og kvenna. Þá verða útgjöld til varnarmála aukin um 40,5 milljarða DSK á næstu fjórum árum umfram þá 155 milljarða sem þegar hafði verið ákveðið að verja til málaflokksins. Stefnt er að því að strax á næsta ári nái Danir NATO-markmiðinu um að útgjöld þeirra til varnarmála nemi 2% af vergri landsframleiðslu án þess að í þeirri tölu sé reiknað með stuðningi við Úkraínu.

Ráðherrarnir sem kynntu útgjaldaaukninguna sögðu að hana mætti rekja til hættunnar sem steðjaði að Dönum frá Rússum. Dönum væri nauðugur sá kostur eins og öðrum Evrópuþjóðum að búa sig undir stríð.

Á vefsíðu Berlingske segir fimmtudaginn 14. mars að ekki séu allir á einu máli í umræðum um styrjaldarhættu. Blaðið snýr sér til sérfræðings í öryggismálum sem nýtur mikils trausts í Danmörku og spyr hann hvort við séum í raun á barmi styrjaldar.

Viðmælandi blaðsins er Mikkel Vedby Rasmussen, prófessor í alþjóðastjórnmálum við Kaupmannahafnarháskóla. Hann hefur starfað á vegum danska varnarmálaráðuneytisins að greiningu og mótun stefnu til langs tíma fyrir utan að stofna og koma að starfsemi danskra hugveitna um hernaðarleg málefni og öryggismál.

Hann segir að það sem gerist nú sé að forystumenn í dönskum stjórnmálum hafi loksins áttað sig á nauðsyn þess að líta ógnina alvarlegum augum. „Og svo ég sé  heiðarlegur, þá er mér létt,“ segir prófessorinn.

Blaðamaðurinn rifjar upp að snemma í janúar hafi Carl-Oskar Bohlin, almannavarnaráðherra Svíþjóðar, sagt að allir Svíar yrðu að búa sig undir að það kynni að verða háð styrjöld í Svíþjóð.

Þýski varnarmálaráðherrann, Boris Pistorius, hafi skömmu síðar sagt að innan fimm til átta ára kynni Rússum að detta í hug að „ráðast á NATO-land“.

Þá segir að kunnur danskur prófessor, Ole Wæver, hafi nýlega sagt í samtali við Politiken að það væri ekki sannfærandi að halda því fram að við stæðum frammi fyrir stórstríði milli Rússlands og NATO, það væri einfaldlega ekki rétt.

Minnt er á að Mikkel Vedby Rasmussen hafi skrifað fjölmargar greinar og bækur um öryggismál, hættustjórn, stríð og frið og hann hafi fylgst náið með ógninni frá Rússum frá því að Pútin réðst inn í Úkraínu.

Hann segist hafa séð hvernig Evrópa hafi breyst og sé ekki í neinum vafa.

Hættan á stórstríði hefur aukist. Hún hefur aukist mikið.

„Þeir (stjórnmálamennirnir) draga upp mynd af því sem kann að gerast. Mér finnst satt að segja ósanngjarnt að segja þá birta ranga mynd eða að þeir flytji hræðsluáróður. Fyrir liggur sameiginleg afstaða á vettvangi NATO um að nú sé ástandið hættulegt,“ segir Mikkel Vedby Rasmussen og bætir við: „Síðan er auðvitað unnt að stofna til umræðna um hvernig best sé að skapa frið og öryggi í Evrópu.“

Blaðamaðurinn spyr hvort hætta sé á að með þessu tali kveiki maður ákveðnar tilfinningar.

„Ég tel að danskir og evrópskir stjórnmálamenn brygðust skyldu sinni ef þeir vektu ekki máls á því að heimurinn hefur tekið á sig nýja mynd eftir innrás Rússa. Mörg þeirra sjónarmiða sem hafa mótað viðhorf okkar síðustu 30 til 40 ár eiga ekki við lengur. Ég tel mikilvægt að um það sé rætt á stjórnmálavettvangi,“ segir Mikkel Vedby Rasmussen.

Blaðamaðurinn segir að yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar séu meðal annars reistar á greiningu leyniþjónustu hersins (Forsvarets Efterretningstjeneste) sem segi í nýjasta hættumati sínu „mjög sennilegt“ að á næstu árum muni Rússar „reyna að skapa alþjóðleg viðmið og reglur“ með hernaðarmætti.

Mikkel Vedby Rasmussen er sammála þessu.

„Það er bein ógn fyrir hendi,“ fullyrðir hann. „Við eigum að fagna því að hafa lifað tímabil þegar ekki var ástæða til að ræða þetta. Þar sem ekki var ástæða fyrir okkur til að óttast stórstyrjöld. Sá lúxus er hins vegar að baki. Og það er fyllsta ástæða til að hafa áhyggjur af því.“

Þegar hann er spurður beint hvernig hann meti að þessi hætta sé fyrir hendi svarar Mikkel Vedby Rasmussen:

„Við erum ákaflega berskjaldaðir andspænis þrýstingi frá Rússum. Við höfum einfaldlega ekki getu, eins og málum er nú háttað, til að veita Rússum viðnám, og þegar okkur skortir afl til þess getum við ekki heldur beitt þá fælingarmætti.

Ég hef árum saman varað við þessu. Við ráðum yfir alls kyns leiðum til að tryggja frið í Evrópu en það krefst þess að við framleiðum mikið af skotfærum, leggjum eigin hermönnum til betri búnað og leggjum mikið fé til varnarmála.“

Hafa Rússar getuna? spyr blaðamaður Berlingske.

„Mér sýnist að segja megi að þeir hafi hana eins og birst hefur í Úkraínu. Þegar á allt er litið má segja að Rússar hafi misst einn her og komið á fót nýjum. Þeir hafa lagað hagkerfi sitt og framleiðslu að stríðsrekstri.“

Nú hefur danska ríkisstjórnin kynnt nýja aðgerð til að efla herinn. Hvað finnst þér um það? spyr blaðamaðurinn.

„Að sumu leyti er ég argur yfir því að þetta kosti svona mikið. Hefðum við tekið til við þetta fyrr hefði reikningurinn ekki orðið svona hár og þetta hefði ekki verið eins erfitt. En í ljósi þess sem við blasir núna fagna ég forystu ríkisstjórnarinnar með þessari tillögu hennar.“

Hverju breytir þetta nú?

„Nú eru tvö ár liðin frá upphafi stríðsins og við höfum lagt mikinn og mikilvægan skerf af mörkum með að senda hergögn til Úkraínu en við höfum gert alltof lítið til að efla okkar eigin varnir. Það hefði átt að gera það fyrr en nú er þó komið að því.

Mér finnst því skynsamlegt að ríkisstjórnin átti sig á því að Danir geta ekki beðið til 2030 með að skjóta styrkari stoðum undir varnir sínar. Aðgerðaleysi til þess tíma yrði aðeins tilkynning til Rússa um að þeir gætu gert það sem þeim sýndist þar til þá. Við hefðum ekki getað mætt þeim með neinu.“

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …