Home / Fréttir / Danir banna búrkur og niqab

Danir banna búrkur og niqab

Kona í blárri búrku.
Í blárri búrku.
Í niqab
Í niqab.

Danska þingið hefur samþykkt lög sem banna ákveðna gerð af klæðnaði sem hylur andlit fólks á opinberum vettvangi, í lögunum felst bann við að konur klæðist búrkum eða niqab frá 1. ágúst 2018.

Þingmenn Venstre, Íhaldsflokksins og Danska þjóðarflokksins studdu lagafrumvarpið og einnig Jafnaðarmannaflokkurinn nema einn þingmaður hans, Mette Gjerskov.

Þingmenn Frjálslynda bandalagsins (Liberal Alliance, hægri) án ráðherraembætta greiddu atkvæði gegn frumvarpinu fyrir utan Henrik Dahl sem studdi það.

Alls studdu 75 þingmenn frumvarpið en 30 voru andvígir því. Nokkrir þingmenn kusu að vera fjarstaddir.

Meðferð málsins á þingi tók nokkrar vikur. Í þingmeðferðinni afturkallaði ríkisstjórnin ákvæði um að það kynni að sæta fangelsisvist að brjóta gegn lögunum. Á hinn bóginn má sekta þann sem gerist brotlegur við lögin um 1.000 d.kr. (16.000 ísl. kr) fyrir fyrsta brot og allt að 10.000 d.kr. (160.000 ísl. kr.) fyrir fjórða brot á þeim.

Søren Pape Poulsen dómsmálaráðherra segir að lögregla muni ekki beita valdi við að svipta konur andlitsblæjum. Þeim verði frekar bent á að halda aftur heim til sín, búi þær í nágrenninu. Þá sé unnt að fylgja þeim á næstu lögreglustöð og hafa þaðan samband við fjölskyldu þeirra.

Frakkar riðu á vaðið í Evrópu með lögfestingu á banni við andlitsblæjum árið 2011. Danski þjóðarflokkurinn hreyfði því fyrst árið 2009 að setja ætti slíkt bann. Talsmaður flokksins í útlendingamálum, Martin Henriksen, segir að búrkur og niqab falli ekki að danskri menningu og grundvallarstoðum Danmerkur.

Ekki er nákvæmlega vitað hve margir í Danmörku klæðast nú búrkum eða niqab. Nýjustu tölur um þetta eru frá árinu 2010 þegar stjórnvöld töldu að um 150 til 200 konur væri að ræða og notuðu fleiri niqab en búrku.

Niqab hylur höfuðið með rifu fyrir augun. Burqa hylur höfuð og líkama með neti yfir augum.

 

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …