Home / Fréttir / Danir auka útgjöld til varnarmála í fyrsta sinn í aldarfjórðung

Danir auka útgjöld til varnarmála í fyrsta sinn í aldarfjórðung

Danskir hermenn á æfingu,
Danskir hermenn á æfingu,

 

Í Danmörku leggja stjórnmálamenn áherslu á að samið sé um útgjöld til varnarmála án tillits til þess hvort flokkar séu saman í ríkisstjórn eða ekki. Sunnudaginn 28. janúar var kynnt nýtt samkomulag um varnir Danmerkur sem nær til ársins 2023 eða næstu sex ár. 

Samkomulagið felur í sér stefnubreytingu. Í fyrsta sinn frá því að kalda stríðinu lauk er gert ráð fyrir að fjárveitingar til danska heraflans aukist. Alls vaxa útgjöldin um 12,8 milljarða d. kr. næstu sex árin, það er 215 milljarða ísl. kr. 

Gert er ráð fyrir að herinn starfi nánar með lögreglunni en til þessa. 

Claus Hjort Frederiksen varnarmálaráðherra boðaði til blaðamannafundar og kynnti samkomulagið. Hann sagði fulltrúa flokkanna hafa rætt saman í eitt ár og nú lægi þessi niðurstaða fyrir með tillögu um 20% hærri útgjöld til varnarmálanna. 

Danska ríkisútvarpið segir að ótti við tölvuárás og ögranir Rússa hafi meðal annars leitt til þess að meira fé verði veitt til hersins.  

„Þegar litið er á stöðu mála í okkar heimshluta blasa við ýmsar áskoranir. Bæði Svíar og Finnar veita meira fé til varnarmála svo að segja má að það sé sameiginlegt mat að við höfum dalað nokkuð á okkar svæði. Við neyðumst til að endurmeta stöðuna á okkar slóðum og varnarsamkomulagið ber þess merki,“ sagði varnarmálaráðherrann. 

Auk stjórnarflokkanna þriggja Venstre, Íhaldsflokksins og Frjálslynda bandalagsins standa Danski þjóðarflokkurinn, Jafnaðarmannaflokkurinn og Róttækir að samkomulaginu. 

Í tillögunum er gert ráð fyrir að 1,4 milljarði d.kr., 23,5 milljörðum ísl. kr., verði varið til netöryggis í því skyni að tryggja öryggi samskipta og verjast tölvuárás. Hluti þessa fjár á að renna til netöryggismiðstöðvar sem á að tryggja stöðuga vöktun og gera hættumat. 

Ætlunin er að koma á fót 4.000 manna hreyfanlegu stórfylki og setja flugskeyti um borð í freigátur herflotans svo að þær geti tekið þátt í loftvörnum, í fyrstu með svonefndum SM2-flaugum. 

Um hreyfanlega stórfylkið segir varnarmálaráðherrann að því verði ætlað að geta barist sjálfstætt utan landamæra Danmerkur og þess vegna þurfi að búa það mjög vel tækjum. Danir eigi að vera til taks komi beiðni um að þeir sendi stórfylki á vettvang vegna hættuástands einhvers staðar. 

Fjölgað verður í hernum segir í samkomulaginu. Árlega á að fjölga þjálfun þeirra sem gegna herskyldu um 500 og auk þess fjölgar föstum starfsmönnum um 700 til að efla varnirnar, auka samvinnu milli eininga innan hersins og skapa meira byggðajafnvægi. Stefnt er að fjölgun starfsmanna á Borgundarhólmi, Mið-Jótlandi og Suður-Danmörku. 

Samkomulagið leiðir til þess að Danir verja 1,3% af vergri landsframleiðslu til varnarmála – þeir eiga því nokkuð í land til að ná markmiði NATO um 2% árið 2024. 

„Að okkar mati höfum við staðið við verulegan hluta þeirrar skuldbindingar,“ segir Claus Hjort Frederiksen varnarmálaráðherra. 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …