Home / Fréttir / Danir auka fjárframlög til varna á Grænlandi og norðurslóðum

Danir auka fjárframlög til varna á Grænlandi og norðurslóðum

 

Danskt eftirlitsskip við bryggju í Grønnedal á Grænlandi.
Danskt eftirlitsskip við bryggju í Grønnedal á Grænlandi.

Dönsk stjórnvöld hafa ákveðið að nota áfram aðstöðuna í flotastöðinni í Grønnedal í Arsukfirði á Grænlandi. Þar verður birgðastöð en einnig aðstaða til „æfinga og þjálfunar“.

Í Grønnedal var stjórnstöð dönsku herstjórnarinnar á Grænlandi þar til í september 2014 þegar hún var flutt til Nuuk, höfuðstaðar Grænlands. Bandaríkjamenn reistu fyrstu varnarmannvirkin þarna árið 1941 til að verja kryolít-námuna í Ivittuut við fjörðinn.

Að Danir ætli að viðhalda og endurbæta aðstöðuna í Grønnedal sem heitir Kangilinnguit á grænlensku er til marks um endurnýjaða áherslu á varnir Grænlands og norðurslóða.

Í nýju samkomulagi dönsku stjórnmálaflokkanna um varnarmál felst að fjárframlag vegna varnarmála á norðurslóðum verður aukið um 120 milljónir d. kr. á ári, tæpa 2 milljarða ísl. kr.

Fjármununum á að verja til meira eftirlits einkum með gervitunglum og meira flugs eftirlitsvéla.

Þá verður fjölgað herstjórninni í Nuuk og freigátur verða sendar til Grænlands á þeim tíma þegar ís hindrar ekki för þeirra.

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …