Home / Fréttir / Danir ákveða hernaðarlegt framlag á alþjóðavettvangi

Danir ákveða hernaðarlegt framlag á alþjóðavettvangi

Danskir hermenn í Afganistan.
Danskir hermenn í Afganistan.

Danska ríkisstjórnin kynnti utanríkismálanefnd danska þingsins 6. september 2019 stefnu sem miðar að því stuðla að alþjóðlegum friði og öryggi.

Jeppe Kofod utanríkisráðherra.
Jeppe Kofod utanríkisráðherra.

Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Dana, skýrði stefnuna með þessum orðum:

„Við eigum að láta að okkur kveða á viðkvæmum stöðum á alþjóðavettvangi þar sem dönsk gildi og hagsmunir eru í húfi. Til þess eigum við einnig að beita herafla. Þá skal það einnig gert með víðtækari markmið í utanríkis- og öryggismálum að leiðarljósi. Þegar við leggjum til nýjan herafla á Sahel-svæðinu [fyrir sunnan Sahara] og í Sýrlandi til að berjast gegn ISIL [hryðjuverkasamtökum] snýst það um meira en það eitt að slökkva elda. Við látum að okkur kveða víðar til að stuðla að öryggi, stöðugleika og með það fyrir augum að koma af stað jákvæðri þróun á nágrannasvæðum Evrópu. Við tengjum saman hernaðarlegt framlag og langtímamarkmið á vettvangi utanríkismála, efnahagsmála og þróunarmála. Á sama tíma ber okkur sem kjarnabandamönnum að axla okkar skerf af byrði NATO og leggja rækt við nána sambandið við Bandaríkin. Tillögurnar sem við leggjum fram í dag endurspegla þessa breiðu og yfirveguðu afstöðu.“

Tine Bramsen varnarmálaráðherra.
Tine Bramsen varnarmálaráðherra.

Tine Bramsen, varnarmálaráðherra Dana, sagði:

„Enn einu sinni hafa Danir og danski herinn fengið tilmæli um að leggja sitt af mörkum í þágu friðar og stöðugleika á viðkvæmum stöðum í heiminum. Yfir því er ég einstaklega stolt. Með virkri þátttöku í alþjóðlegri baráttu gegn hryðjuverkum og ófriði eflum við einmitt öryggi Danmerkur og tryggingu Dana. Þá sýnir breiddin í framlagi okkar að þessu sinni glöggt að bandamenn okkar hafa sérstakan áhuga á að nýta hæfni, tækjabúnað og þekkingu hersins og liðsmanna hans. Á sama tíma og við undirstrikum rækilega stöðu okkar sem kjarnaaðila að NATO.“

Hér er listi yfir það sem danska stjórnin vill að gert verði:

  • Fimmtán manna skurðsveit lækna og hjúkrunarfólks verði send til stöðvar samstarfsaðila í Norðaustur-Sýrlandi.

  • Herfylki, stórt herskip og fjórar orrustuvélar hafi það hlutverk að styrkja sameiginlegt átak í þágu fælingar og varna undir merkjum NATO.

  • Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna í Malí (MINUSMA) verði efld með allt að 10 mönnum. Að auki verði send flutningaflugvél og 65 menn vegna reksturs hennar. Jafnframt verði sendar þyrlur og allt að 70 menn til að taka þátt í Operation Barkhane á Sahel-svæðinu undir stjórn Frakka.

  • Freigáta verði eitt fylgdarskipa bandarísks flugmóðurskips á Norður-Atlantshafi.

Fyrir utan þetta hefur danska stjórnin mótað jákvæða afstöðu til þess að senda herskip til þátttöku í alþjóðlegri flotadeild í Hormuz-sundi á Persaflóa.

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …