Home / Fréttir / Danir á báðum áttum vegna Nord Stream 2 frá Rússlandi til Þýskalands

Danir á báðum áttum vegna Nord Stream 2 frá Rússlandi til Þýskalands

 

Fyrirhuguð leið Nord Stream 2.
Fyrirhuguð leið Nord Stream 2.

Danir eiga að hafna ósk Rússa um að leggja gasleiðslu á dönsku yfirráðasvæði, segir sérfræðingur í rússneskum málefnum á dönsku vefsíðunni Altinget.dk þriðjudaginn 28. mars. Fara eigi að ráðum Anders Foghs Rasmussens, fyrrv. forsætisráðherra og fyrrv. framkvæmdastjóra NATO, sem hefur sagt við flokksbróður sinn úr Venstre-flokknum, Lars Løkke Rasmussen, að ekki eigi að leyfa gasleiðsluna í danskri lögsögu.

Um er að ræða Nord Stream 2 leiðsluna sem á að flytja gas frá norðurhluta Rússlands á botni Eystrasalts til Þýskalands. Fyrirtækið sem stendur að framkvæmdinni, Nord Stream 2, hefur aðsetur í Sviss en er eign Gazprom þar sem rússneska ríkið er stærsti hluthafi. Vestur-evrópsku fyrirtækin Uniper, BASF, Engie, OMV og Shell styðja áformin um auka innflutning á gasi til ESB um allt að 55 milljörðum rúmmetrum af gasi á ári. Áætlanir Nord Stream 2 gera ráð fyrir að nýja gasleiðslan verði tekin í notkun á árinu 2019.

Mette Skak, sérfræðingur í öryggismálum og lektor í stjórnmálafræði við Árósar-háskóla, varar dönsk stjórnvöld við að leyfa Rússum þessa framkvæmd í danskri lögsögu. Á Altinget.dk segir að Mette Skak sér fremsti Rússlandsfræðingur Dana og hún telji að Danir eigi að nýta sér lykilstöðu sína í þessu storpolitiske drama, stórpólitíska drama, sem snýr að gassölu Rússa til Þjóðverja.

„Ég legg til við ríkisstjórnina að hún láti ekki stjórnast af skammsýnum áhyggjum um að verða óvinsæl í Moskvu og Berlín, hún á þess í stað að hugsa langt fram í tímann. Sé það gert hafa Danir engan hag af því að jarðorkulindir Rússa ráði för í orku- og öryggismálum Evrópu,“ segir Mette Skak.

Áætlanir Nord Stream 2 gera ráð fyrir að á 140 km svæði skammt frá Borgundarhólmi fari leiðslan um danska lögsögu og þess vegna þarf samþykki danskra yfirvalda. Í samtali við fréttastofu danska ríkisútvarpsins, DR, segir talsmaður fyrirtækisins á innan viku verði tilmæli um afnot af hafsbotni innan dönsku lögsögunnar lögð fyrir dönsk stjórnvöld. Ríkisstjórn Dana verður því að taka afstöðu til þess hvort meira rússneskt gas verður flutt þessa leið til Evrópu.

Mette Skak segir að það sé alls ekki vandræðalaust að samþykkja tilmæli Nord Stream 2. Það sé andstætt stefnu ESB um að innan Evrópu dragi menn úr notkun á gasi og olíu og nýti græna orku þess í stað. Þá geti Rússar notað nýja leið til að flytja gas til ESB til að beita ýmis ríki Austur-Evrópu þrýstingi.

Mette Skak tekur einnig undir með Anders Fogh Rasmussen þegar hann segir að segðu Danir já við tilmælunum fælist í því einkennilegt viðhorf á sama tíma og ESB beitir Rússa viðskiptaþvingunum vegna deilna þeirra við Úkraínumenn um Krímskaga.

„Það væri tóm vitleysa að segja já við Nord Stream 2 um leið og Rússar eru beittir viðskiptaþvingunum,“ sagði Anders Fogh Rasmussen við DR.

„Ég er sammála þessu,“ segir Mette Skak. „Það vitum við um Rússa að ekki er um neina gagnkvæmni af þeirra hálfu að ræða. Það er þess vegna allt óljóst um hvaða hag við hefðum af þessu.“

Danska ríkisstjórnin hefur viljað móta sameiginlega afstöðu til málsins sem sænsku ríkisstjórninni en það hefur ekki enn tekist.

„Í geópólitísku ljósi er þetta ofurviðkvæmt mál. Annars vegar eru þjóðir Austur-Evrópu á nálum yfir því sem kunni að gerast. Hins vegar eru Þjóðverjar sem vilja gjarnan að af framkvæmdinni verði,“ segir Michael Aastrup Jensen, talsmaður Venstre í utanríkismálum við Altinget.dk.

Hann bendir jafnframt á að lögfræðingar séu ekki sammála um hvað Danir geti einir gert til að stöðva framgang verkefnisins. Það sé enn til athugunar.

„Þú færð mig ekki til að svara hvort við segjum já eða nei. Við förum lítil skref fyrir skref. Þótt ég hafi heyrt að umsókn sé á leiðinni hefur hún ekki enn borist. Við ræðum þetta því enn í viðtengingarhætti,“ segir Michael Aastrup Jensen.

Hann segist ekki undrandi á afstöðu Anders Foghs Rasmussens. Úkraínustjórn hafi ráðið hann sem ráðgjafa sinn. Skiljanlegt sé að Úkraínumenn séu 100% á varðbergi vegna þessa.

Martin Lidegaard, úr róttæka flokknum og fyrrverandi utanríkisráðherra Dana, telur vafasamt að Danir komist upp með að segja nei við verkefninu. Það verði því miður erfitt að stöðva Rússana. Verði ekki unnt að gera það með sameiginlegri ákvörðun innan ESB eigi Danir á hættu að fá dómsúrskurð í bakið  með vísan til laganna sem nú gildi á þessu sviði.

Hann segist þess vegna velta fyrir sér þeirri leið í málinu að innan ESB komi ríki sér saman um að framkvæmdastjórn ESB hafi umsjón með gasleiðslunni og fái fyrirmæli um að grípa til aðgerða misnoti Rússar leiðsluna til þrýstings eða á annan hátt.

Þú býst sem sagt við að Nord Stream 2 komi, spyr blaðamaður Altinget.dk og Martin Lidegaard svarar: „ Að mínu mati verður erfitt að komast hjá því nema ríkisstjórninni takist að afla sér nægilegs stuðnings til að hafna henni í gegnum ESB.“

 

Skoða einnig

Tortryggni í garð Moskvuvaldsins vex í gömlu Sovétlýðveldunum

Stuðningur við forsystusveit Rússlands hefur hrapað í nágrannalöndum landsins. Íbúar landanna eru tortryggnir í garð …